- Advertisement -

Geirfinnsmálið: Biturð getur verið langlíf

Þeirra sem komist hafa upp með að leyna því í 45 ár hvað í raun og veru gerðist.

Marinó G. Njálsson skrifar fréttaljós:

Biturð getur greinilega verið langlíf. Það er síðan skelfilegt, þegar henni er beint gegn röngu fólki.

Þrír af þeim sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna rangra ásakana á rannsóknarstigi Guðmundar- og Geirfinnsmálsins vilja ekki að þeir sem sýknaðir voru í málinu af Hæstarétti í september í fyrra fái bætur, vegna þess að viðkomandi voru dæmdir fyrir mörg önnur mál líka. M.a. rangar sakargiftir á hendur þremenningunum og þeim fjórða líka. Þessir menn liðu vissulega kvalir vegna þeirrar einangrunar, sem þeir voru í, en það var EKKI krökkum um tvítugt að kenna.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Lögreglan var löngu áður en Sævar og Erla voru handtekin búin að ákveða að Magnús Leópoldsson bæri ábyrgð á hvarfi Geirfinns.

Lögreglan var löngu áður en Sævar og Erla voru handtekin búin að ákveða að Magnús Leópoldsson bæri ábyrgð á hvarfi Geirfinns. Nokkrum mánuðum áður en Sævar og Erla voru handtekin fyrir póstsvikin var kominn fram framburður um tengsl Magnúsar og þegar blessuð styttan var útbúin, þá mun sá sem útbjó styttuna hafa fengið mynd af Magnúsi sem fyrirmynd. Rannsakendur í Geirfinnsmálinu bera alla ábyrgð á því að krakkar, sem beittir voru pyntingum, sögðu hvað sem var sem þeim var talin trú um. Það er hins vegar til skjalfest, að lögreglan tók niður vitnisburð um tveimur mánuðum áður en Sævar og Erla voru handtekin, þar sem Magnús Leópoldsson var bendlaður við hvarf Geirfinns. Hvernig í ósköpunum gátu þau vitað að Magnús væri hugsanlega bendlaður við málið, nema að rannsakendur hefðu sagt þeim það? Það er t.d. komið á hreint að þau voru ekki einu sinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf og því gátu þau ekki vitað hverjir aðrir voru þar.

Jón Daníelsson greinir frá því í bók sinni Sá sem flýr undan dýri, að vinnufélagi Geirfinns hafi farið með honum í Klúbbinn sunnudeginum áður en Geirfinnur hvarf. Þar hafi Geirfinnur hitt mann milli 25-30 ára, sem mér virðist stemma við lýsinguna á „Leirfinni“ og líklegast hafa rannsakendur haldið það líka, sbr. að fyrirmyndin að Leirfinni var að sagt er Magnús Leópoldsson. Þarna kemur fyrsta tengin rannsakenda við Klúbbinn. Jón greinir einnig frá því, að tæpum tveimur mánuðum áður en Sævar og Erla voru handtekin vegna póstsvikamálsins, svo kallaða, og ári eftir hvarf Geirfinns, hafi 19 ára drengur gefið lögreglunni skýrslu sem tengdi föður hans við hvarf Geirfinns. Lögreglan tengdi síðan föðurinn við Klúbbinn og Geirfinn líka. Þarna voru rannsakendur komnir með tvær tengingar við Klúbbinn og hvorug frá Sævari eða Erlu komin. Sævar og Erla sögðu bara þá sögu, sem rannsóknaraðilar plöntuðu í hausnum á þeim, alveg eins og var um allt varðandi dauða Guðmundar og Geirfinns. ALLT í þessu máli, nema að tveir menn hurfu og hafa ekki sést síðan, er tilbúningur lögreglunnar eða spunnið upp úr framburði vinnufélaga Geirfinns eða drengsins sem var viss um að faðir hans væri tengdur hvarfi Geirfinns.

Reynt var síðar að tengja Kristján Viðar við styttuna af Leirfinni.

En ég þarf ekki að vitna í Jón Daníelsson, því 6. febrúar 2003 birtist ágætis grein í Morgunblaðinu um tengingu Klúbbsins við Geirfinnsmálið – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/712931/. Í henni kemur fram, að nafn Klúbbsins hafi komið „inn í umræðu um Geirfinnsmálið strax á fyrstu dögum rannsóknarinnar“. Og síðar: „Hjá RLR sagðist [afgreiðslukonan í Hafnarbúðinni] hafa verið reið vegna þess að hún hafi séð að myndin [(þ.e. Leirfinnu)] var búin til eftir mynd af Magnúsi Leópoldssyni, en áður hefðu Haukur Guðmundsson, lögreglumaður og Magnús Gíslason fréttaritari Vísisi (sic) verið búnir að elta sig og sýna sér mynd af Magnúsi Leópoldssyni og spyrja sig hvort hún væri ekki lík manninum sem kom í Hafnarbúðina til að hringja.“ Varla komu Sævar og Erla þeirri flugu í höfuð rannsakenda, þarna árið 1974, þ.e. ári áður en þau voru handtekin vegna afbrots sem voru ekki búin að fremja, að Klúbburinn og þar með Magnús Leópoldsson væru tengdir hvarfi Geirfinns. Reynt var síðar að tengja Kristján Viðar við styttuna af Leirfinni, en mér sýnist sem gleymst hafi að gera ráð fyrir, að Kristján var að minnsta kosti ári yngri, þegar Geirfinnur hvarf en þegar myndin, sem notuð var til samanburðar, var tekin. Auk þess steig fram maður, Jón Grímsson, og viðurkenndi að hafa fengið að hringja úr síma í Hafnarbúðinni nákvæmlega á þeim tíma sem „Leirfinnur“ var þar. Hann var klæddur eins og afgreiðslustúlkurnar lýstu manninum sem hringdi (sjá – http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3023209). Vitnin voru ekki einu sinni spurð að því hvort hann væri maðurinn, sem hefið hringt umrætt kvöld.

Nei, það var ásetningur rannsakenda að fá þá til að játa.

Ég hef, eins og þeir sem eru á mínu aldri og þaðan af eldri, fylgst með þessum málum frá upphafi. Man þó ekki eftir hvarfi Guðmundar, þegar það gerðist, en öllu því sem á eftir fylgdi. T.d. man ég vel eftir póstsvikamálinu og að sjálfsögðu leitinni af Geirfinni. Flestir trúðu því að þessir „ekki kórdrengir“ væru sekir, en það voru einmitt þessi orð, sem fengu mig fyrst til að efast. Man ekki hver lét þau út úr sér, en mér fannst þau ættu að vera réttlæting á því að í lagi væri að fangelsa þessa krakka. Núna er komið í ljós, að rannsakendur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, og þá sérstaklega hinn þýski Karl Schütz, gátu ekki viðurkennt fyrir þjóðinni að þeir voru á rangri leið. Sama á við þremenningana, sem eru svo fullir biturð út í krakka sem leiddir voru í gildru þessara sömu rannsakenda og sögðu það sem þeim var sagt að segja. Það voru ekki þessir „ekki kórdrengir“ sem urðu til þess að fjórmenningarnir tengdir við Klúbbinn sátu í einangrun mánuðum sama. Nei, það var ásetningur rannsakenda að fá þá til að játa. T.d. kom fram fjarvistarsönnun fyrir Magnús aðeins tveimur dögum eftir að hann var handtekinn. Sá vitnisburður hentaði ekki rannsakendum, þó hann hafi að lokum orðið til þess að fjórmenningunum var sleppt. Kjósi þremenningarnir að vera bitrir út í einhverja, þá ættu þeir að beina henni að rannsakendum málsins. Sönnun fyrir sakleysi Magnúsar kom fram TVEIMUR DÖGUM eftir handtöku og þá áttu rannsakendur að láta kyrrt liggja. Þeirra er því ábyrgðin og engra annarra. (Jú, og gerendanna í Geirfinnsmálinu. Þeirra sem komist hafa upp með að leyna því í 45 ár hvað í raun og veru gerðist 19. nóvember 1974.)


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: