- Advertisement -

Gera má ráð fyrir stormi á Alþingi í dag

„Þá hafa komið upp tilvik þar sem stjórnvöld hafa gert samninga við erlenda aðila um úthlutun byggðakvóta þrátt fyrir að slíkt brjóti í bága við ákvæði laga sem banna erlent eignarhald á íslenskum útgerðum.“

Átök kunna að verða á Alþingi í dag þegar rætt verður um beiðni margra þingmanna um hvort Ríkisendurskoðun verði falið að gera skýrslu um úthlutun Byggðastofnunar á byggðakvóta. Margir þingmenn óska eftir þessu: allur þingflokkur Flokks fólksins og Pírata auk tveggja þingmanna Viðreisnar. Fremst fer Sigurjón Þórðarson Flokki fólksins. Hann situr þingið núna í fjarveru Eyjólfs Ármannssonar.

Í greinargerð sem fylgir beiðninni segir:

„Úthlutun byggðakvóta hefur sætt gagnrýni og deilt hefur verið um hvort stjórnvöld hafi ávallt haft byggðasjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku um úthlutun byggðakvóta. Þá hefur það sætt gagnrýni þegar stærri útgerðir fá úthlutað til sín byggðakvóta, enda margir sem rekja neikvæða byggðaþróun undanfarinna áratuga til samþjöppunar veiðiheimilda á fárra hendur. Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu er þess ekki gætt hvort viðtakendur byggðakvóta hafi yfir að ráða meiri aflaheimildum en sem nemi hámarksaflahlutdeild. Það er vægast sagt bagalegt að við úthlutun aflaheimilda sem ætlaðar eru til að leiðrétta hlut þeirra byggða sem hafa orðið fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna áhrifa kvótakerfisins og samþjöppunar veiðiheimilda séu engin takmörk fyrir því að útgerðum sem jafnvel hafa yfir að ráða meiri kvóta en sem nemur lögbundnu hámarki sé úthlutað byggðakvóta í ofanálag. Þá hafa margir gagnrýnt að ekki séu gerðar kröfur um að fiskiskip sem fái úthlutað byggðakvóta landi aflanum í heimahöfn. Þá hafa komið upp tilvik þar sem stjórnvöld hafa gert samninga við erlenda aðila um úthlutun byggðakvóta þrátt fyrir að slíkt brjóti í bága við ákvæði laga sem banna erlent eignarhald á íslenskum útgerðum.“

…að ríkisendurskoðanda verði falið að gera úttekt á ráðstöfun byggðakvóta.

 
Lesum áfram: „Þá telja flutningsmenn tilefni til að ríkisendurskoðandi skoði sérstaklega hvort framsetning ársreikninga Byggðastofnunar sé í samræmi við lög og góða endurskoðunarhætti í ljósi þess að þar er hvergi getið samninga um byggðakvóta sem þó nema umtalsverðum fjárhæðum. 
    

Það er meginregla íslenskrar stjórnsýslu að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um úthlutun gæða sé jafnræðis gætt meðal umsækjenda. Þegar um ræðir jafn mikilvæga ráðstöfun og úthlutun byggðakvóta má fullyrða að það sé öllum til gagns að framkvæmdin sé hafin yfir vafa. Því telja flutningsmenn brýnt að ríkisendurskoðanda verði falið að gera úttekt á ráðstöfun byggðakvóta,“ segir í þessari harðorðu greinargerð.

Víst er að ekki sé einhugur um þetta og því er forvitnilegt hvernig Alþingi tekst á við þetta brýna mál.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: