- Advertisement -

Gerið heimsgersemar sýnilegar

Menning: „Stjórn Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO skorar á ríkisstjórn Íslands að vinda bráðan bug að því að gera þessar heimsgersemar sýnilegar á nýjan leik, þar til þær eignast framtíðarheimili við hæfi á Melunum. Með stórri hugsun er hægt að leysa þetta hratt og vel.“

Svo segir í tilkynningu frá stjórn Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO, en árið 2011 hlaut Reykjavík útnefningu sem ein af Bókmenntaborgum UNESCO, að undangengnu löngu og ströngu umsóknarferli. Þessi vegtylla gefur höfuðborginni og landinu öllu aukna möguleika á því að kynna hið merka sköpunarstarf sem hér er unnið undir merkjum orðlistar og bókmenningar.

Veigamikill þáttur í umsókn Reykjavíkurborgar fólst í því að benda á að í borginni er varðveittur stór hluti af handritasafni Árna Magnússonar, gersemar sem eru á skrá UNESCO yfir Minni heimsins – og að hér sé miðstöð rannsókna á þessum mikilvæga arfi. Það skýtur því óneitanlega skökku við að frá síðasta hausti hefur verið nánast ómögulegt fyrir þá sem sækja borgina heim að fá að skoða þessi merku handrit, sem vekja þó aðdáun og eftirtekt allra sem komast í návígi við þau.

Stjórnina skipa: Auður Árný Stefánsdóttir, Friðbjörg Ingimarsdóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir, Oddný Sturludóttir, Pálína Magnúsdóttir, Rúnar Helgi Vignisson, Sigurður Svavarsson, Sjón, Svanhildur Konráðsdóttir, Þorgerður Agla Magnúsdóttir, Þór Steinarsson.

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: