- Advertisement -

Gleyptu beitu Gylfa Zoega

Verkalýðsleiðtogarnir gleyptu beituna frá Gylfa Zoega.

Gylfi Zoega hagfræðingur, fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans, var sendur fram á sviðið og hann spilaði út brellu (beitu), sem átti að duga fyrir verkalýðsleiðtogana.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Þegar ríkisstjórnin var mynduð var sett ákvæði inn í stjórnarsáttmálann um, að lítið sem ekkert svigrúm væri fyrir launahækkunum. Ljóst var þá, að stefna Sjálfstæðisflokksins hafði náð fram að ganga í kjaramálum. Vinstri flokkurinn (VG) hafði ekki náð sínu fram. Þetta var síðan sú stefna sem forsætisráðherra barðist fyrir, þegar undirbúningur kjaraviðræðna hófst en sá undirbúningur stóð yfir í tæpt ár. Andrés Ingi Jónsson þingmaður VG var mjög hissa þegar hann sá umrætt ákvæði í stjórnarsáttmálanum. Honum varð að orði, að hann hefði haldið, að þetta hefði verið samið í viðskiptaráði! Hann studdi ekki stjórnarsáttmálann. Ég minnist þess, að fyrsta innlegg KJ um kjaramálin var, að óvíst væri að nokkuð svigrúm væri fyrir launahækkunum. (KJ var þá greinilega orðin kaþólskari en páfinn). Allt undanfarandi ár áður en formlegar kjaraviðræður hófust máttu borgarar landsins hlusta á stanslausan áróður atvinnurekenda og ráðherra um það, að ekki væri grundvöllur fyrir neinum launahækkunum, í mesta lagi 1-2%.

Honum varð að orði, að hann hefði haldið, að þetta hefði verið samið í viðskiptaráði!

Þegar í ljós kom, að þessi stanslausi áróður SA og stjórnvalda um, að ekki væri grundvöllur fyrir neinum kauphækkunum, var ekki að skila árangri, var Gylfi Zoega hagfræðingur, fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans, sendur fram á sviðið og hann spilaði út brellu (beitu), sem átti að duga fyrir verkalýðsleiðtogana. Hann sagði: Ef þið dragið úr kauphækkunum og semjið aðeins um hóflegar kauphækkanir, þá geta stýrivextir Seðlabankans lækkað. Þetta dugði.

Verkalýðsleiðtogarnir gleyptu beituna. Og þeir drógu úr launahækkunum fyrsta ár nýs samnings; laun aðeins hækkuð um 5,6% 1 .apríl og látin haldast óbreytt í heilt ár (248 þús. eftir skatt. Hver lifir á því?

Launahækkun verkafólks fyrsta árið var fórnað fyrir tilraun til vaxtalækkunar. Ég kalla þetta tilraun til vaxtalækkunar, þar eð vaxtalækkun er ekki í hendi. Sett var inn í kjarasamninginn að, ef vextir lækkuðu ekki mætti segja samningnum upp. Ákvæðið um vaxtalækkun hefur farið illa í Seðlabankastjóra og hagfræðinga bankans. Þeir segja að þetta ákvæði séu mistök. Valdið til ákvarðana um vexti sé í höndum Seðlabankans og verði ekki tekið þaðan með ákvæði í kjarasamningi. Það sé lögbundið, að Seðlabankinn beiti stýrivöxtum gegn verðbólgu. Kjarasamningur breyti því ekki.

Samkvæmt þessu er ljóst, að sú fórn verkalýðsfélaganna að afsala sér kauphækkun lægst launuðu launþega fyrir tilraun til vaxtalækkunar er hættuspil, sem engan veginn er öruggt að skili sér. Að mínu mati höfðu verkalýðsleiðtogarnir ekkert leyfi til þess að draga úr launahækkunum verkafólks vegna þessarar tilraunar. Þegar yfirstéttin var að raka til sín launahækkunum var ekki minnst á að draga úr þeim hækkunum. Þá veifaði Gylfi Zoega ekki „loforði“ um vaxtalækkun ef dregið yrði ofurlaunahækkunum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: