Ef háttvirtur þingmaður er með einhverjar aðrar leiðir til að draga úr afkomu en að minnka útgjöld eða auka tekjur þá myndi ég gjarnan vilja vita hvað það er.
Kristrún Frostadóttir.
Sigurður Ingi Framsóknaformaður og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherar skiptust á skoðunum um stöðu efnahagsmála í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Hér á eftir má lesa meginhluta orðaskiptanna:
„…að fjarlægjast þau markmið.“
Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi: „Forsætisráðherra þarf núna að sýna í verki með hvaða hætti hún ætlar að ná niður verðbólgu og lækka vexti. Hér er stærsta hagsmunamál almennings og þjóðfélagsins. Við þurfum þjóðarsátt og sameiginlegan skilning á verkefninu. Við erum hér í upphafi nýs kjörtímabils og við hljótum að kalla eftir sameiginlegri sýn. Að koma vöxtum og verðlagi niður, það er verkefnið sem við eigum að einblína á og við í Framsókn erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum til að það nái fram að ganga. Því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra hvort í gangi sé markvisst samtal, samráð aðila vinnumarkaðarins, Seðlabankans, sveitarfélaga og ríkisstjórnar um aðgerðir til að ná fram verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, því að við virðumst eins og sakir standa vera að fjarlægjast þau markmið.“
„Vextir hafa lækkað um 1,75% eftir að ríkisstjórnin tók við.“
Kristrún.
Kristrún: „Ég hef áhyggjur af þessu og ríkisstjórnin hefur áhyggjur af stöðu verðbólgu og stöðu vaxta í landinu. Við lítum þetta alvarlegum augum og ríkið mun gera það sem þarf til að halda aftur af verðbólgu. Við erum að sjá ákveðna þróun í innlendum þáttum verðbólgu sem er áhyggjuefni. Við erum að fylgjast mjög náið með þessu. Ég á í reglulegu samtali bæði við forsvarsmenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar um stöðu mála og þetta er án efa eitt af stærstu umræðuefnum sem við munum taka fyrir hér í haust og þegar við förum að ræða fjárlög. Við höfum sett okkur það pólitíska markmið — athugið, pólitískt, ekki teknókratískt eða kerfislegt heldur pólitískt markmið — að skila afkomu á núlli 2027. Ég sé að eftir breytingartillögur sem hafa verið unnar út af uppfærslu á fjármálaáætlun, er þetta dottið í mínus einn milljarð, mínus einn, á meðan við vorum að eiga við tugi milljarða á undanförnum árum. Ég get fundið þennan eina milljarð. Við munum finna þennan eina milljarð og ef það þarf að finna fleiri milljarða þá mun ríkisstjórnin finna fleiri milljarða vegna þess að við erum búin að skuldbinda okkur til þess að senda skýr pólitísk skilaboð um að það muni ekki standa á ríkinu þegar kemur að því að halda aftur af verðbólgu. Þannig að við höldum vöku okkar og við höfum vissulega séð jákvæðar fréttir. Vextir hafa lækkað um 1,75% eftir að ríkisstjórnin tók við. Við erum með verðbólgu í kringum 4%. Mér finnst það ekki nógu lágt. Ég myndi vilja sjá enn þá lægri tölur. En það þýðir ekkert að kvarta undan því, við verðum að gera eitthvað í því og ég fagna því að háttvirtur þingmaður veki athygli á þessu og hlakka til að eiga efnisríkt og virkt samstarf og samtal um þetta hérna í haust.“
„Það er betra að sýna það í verki.“
Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi: „Við munum finna fleiri milljarða. Eru skilaboðin: Við ætlum að hækka skatta enn frekar? Eða eru skilaboðin: Við ætlum að fara í enn frekara aðhald, niðurskurð? Mínus einn, sagði hæstvirtur ráðherra. Já, það er eftir að búið er að taka þrjá milljarða úr varasjóðnum þannig að þeir voru mínus fjóra. Munurinn er ekki svo mikill. Lækkunin á verðbólgunni var satt best að segja talsvert hraðari í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur síðan aðeins dregið úr, svona eftir 100 daga ríkisstjórnarinnar.
Það er ágætt að hafa pólitískt markmið. Það er betra að sýna það í verki. Ég hef áhyggjur af því að hæstvirtur ráðherra sagði í tvígang í svari við fyrirspurn minni að þetta myndum við skoða í haust. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða. Ég ætla því að ítreka að lokum spurningu mína, hvort hæstvirtur forsætisráðherra hyggist kalla saman aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin, Seðlabankann, til þess að taka samtalið um hvaða aðgerða við getum gripið til núna.“
Kristrún: „Ríkisstjórnin mun beita þeim tækjum sem eiga við og sem virka. Hér talar fólk um hvort við munum hækka skatta eða hvort við munum skera niður. Ef háttvirtur þingmaður er með einhverjar aðrar leiðir til að draga úr afkomu en að minnka útgjöld eða auka tekjur þá myndi ég gjarnan vilja vita hvað það er. Það liggur auðvitað fyrir að það mun þurfa að ráðast í einhverjar aðgerðir sem verða erfiðar og annars eru þær ekki trúverðugar. Það treystum við okkur í. Við erum að vinna í atvinnustefnu núna sem ýtir undir verðmætasköpun í landinu og verður kynnt á haustdögum og við hlökkum til að fá samráð líka frá minni hluta þingsins þar.
Þegar ég segi að við skoðum þetta í haust þá er ég vissulega að tala um í tengslum við framlagningu fjárlaga. Það er ekki þannig að fram á haust gerist ekkert í Stjórnarráðinu eða hinum pólitíska heimi. Eins og ég segi, ég er og fjármálaráðherra í virku samtali við atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna og það er ekkert því til fyrirstöðu að þau séu kölluð til á einhverjum sérstökum fundi. Ég hef hins vegar haft þann háttinn á að eiga reglulega fundi með fólki og þetta er ítrekað á borðinu og við tökum þessu alvarlega.“