Kristún Frostadóttir forsætisráðherra skrifaði:
Góður fundur með Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO. Þar kom fram fullur skilningur á stöðu og framlagi Íslands til sameiginlegra varna NATO-ríkja. Þó að Atlantshafsbandalagið og aðildarríki þess bregðist núna hratt við vendingum í öryggis- og varnarmálum þá verður engin eðlisbreyting á sambandi Íslands við NATO og bandalagsríki okkar.
Við erum herlaust land – en við erum í lykilstöðu í Norður-Atlantshafinu. Og framlag okkar er mikils metið eins og verið hefur síðan Ísland gerðist eitt af 12 stofnríkjum NATO árið 1949.
Ég vil að Ísland taki virkan þátt og veiti forystu í öryggis- og varnarmálum í okkar nærumhverfi. Við munum áfram vinna náið með NATO og auka viðbúnað og fjárfestingu í varnartengdum innviðum á næstu árum – sem geta einnig nýst í borgaralegum tilgangi. Það skiptir máli fyrir hagsmuni Íslands að við styrkjum getu okkar til að starfa með vinaþjóðum og bandalagsríkjum.
Saman erum við sterkari.
Ríkisstjórnin er algjörlega einhuga um þetta. Sem birtist bæði í nýrri öryggis- og varnarmálastefnu sem unnið er að undir forystu utanríkisráðherra og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2030.
Rutte lýsti ánægju sinni með afstöðu okkar og samstarfið við Ísland. Hann þakkaði sérstaklega fyrir stuðning við Úkraínu og aðkomu að eftirliti og æfingum bandalagsins á Norðurslóðum. Ljóst er að vægi Norðurslóða hefur aukist hratt á þessu sviði og við tökum ábyrgð okkar þar alvarlega.
Framundan er leiðtogafundur NATO í Haag í lok júní. Fundurinn er vel undirbúinn og ég bind vonir við að hann verði árangursríkur og sögulegur fyrir Atlantshafsbandalagið. Saman erum við sterkari.