Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði:
„Hvílíkir eru þessir tímar þegar gengur næst glæpi að tala um tré, því það táknar þögn um svo mörg ódæði.“
Lausleg þýðing á kvæði Brecht Til eftirkomenda. Þá var reynt að útrýma þjóð, líka börnum. Notuð háþróuð efnasambönd sem drápu samstundis. Þá varð vaðið yfir framandi lönd, íbúarnir drepnir, teknir til fanga eða gerðir að vinnubúðaþrælum.
Grimmdin óstöðvandi. Hörmungarnar ólýsanlegar. Menning og minni glötuðust.
Allt er þetta að endurtaka sig, nema þá gripu voldugar þjóðir inní atburðarásina sem sneru að lokum taflinu við. Níðingsverkum lokið. Nú eru þær hvergi sjáanlegar. Þar sem viljinn er til staðar vantar getuna. Þar sem næg geta er fyrir hendi er viljinn veikur eða litið er á harmleikinn sem vandræðalegt grín.
Sjálf þreytumst við að horfast í augu við og meðtaka illvirkin. Við tölum frekar um trjágróður og grassprettu – eða tökum alvöru ferðalag til fjarlægra landa – þar sem tíðindin dofna og gleymast og samviskan hverfur.