- Advertisement -

Grindavík: Mjög snögg ákvarðanataka

„Íbúar Grindavíkur eru ekki einir í þessu viðfangsefni. Samfélagið allt stendur með þeim alla leið.“

KATRÍN JAKOBSDÓTTIR.

Í frumvarpinu er einnig lögð til gjaldtaka til þriggja ára í þeim tilgangi að standa undir kostnaði við fyrirbyggjandi framkvæmdir og gjaldið rennur í ríkissjóð. Er lagt til að það verði innheimt af brunatryggðum húseignum. Spurningar hafa vaknað hvort aðrar leiðir séu heppilegri eins og til að mynda að nýta fjárveitingar ofanflóðasjóðs. Okkar mat er það að þetta fyrirkomulag sé bæði sveigjanlegra og þjálla en að fara með fjármögnun framkvæmdanna í gegnum ofanflóðasjóð sem er í umsjón ofanflóðanefndar. Ofanflóðasjóður fjármagnar venju samkvæmt verkefni sem hafa framkvæmdaáætlun til fimm ára. Hér er verið að tala um mjög snögga ákvarðanatöku þar sem þarf að bregðast hratt við og leggja til gjald sem leggst á brunatryggðar húseignir en áhrif gjaldtökunnar á vísitölu neysluverðs eru talin óveruleg. Ég get nefnt sem dæmi að gjald af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 100 millj. kr. næmi um 8.000 kr. á ári en gjaldið nemur um 0,08‰ af brunabótamati,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í gær.

Síðar sagði hún:

„Það reynir á íslenskt samfélag að sýna úr hverju það er gert þegar svona atburðir steðja að og í þessum málum er það óvissan sem er kannski þyngst og þungbærust því að við vitum ekki nákvæmlega hvað er að fara að gerast. Það er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir þau sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og vita ekkert um framhaldið. Þá skiptir máli að við sem samfélag stöndum með þeim. Þó að maður upplifi sig magnlausan gagnvart eyðileggingarmætti náttúrunnar þá skiptir líka máli að rifja upp seigluna sem við búum yfir sem samfélag. Við erum reiðubúin að takast á við það sem gerist. Íbúar Grindavíkur eru ekki einir í þessu viðfangsefni. Samfélagið allt stendur með þeim alla leið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: