- Advertisement -

Gróði er ekki besta leiðarljósið

, „…fyrst og fremst skattfé sem ráðstafað er til heilbrigðismála.“

Gunnar Smári skrifar:

Kannski er gróði ekki besta leiðarljósið í heilbrigðiskerfinu. Lyfjaverslun á Íslandi var byggð upp af Lyfjaverslun ríkisins, sem tryggði ódýr lyf hér áratugum saman. Þá voru apótek rekin af lyfjafræðingum, einn með hvert apótek, sem rekin voru innan ramma sem mótaður var að þörf sjúklinga fyrir öryggi. Þetta kerfi var brotið upp á núfrjálshyggjuárunum. Niðurstaðan varð fyrst og fremst tvö risafyrirtæki í smásölu, sem hafa gengið kaupum og sölum milli braskara, og fyrst og fremst eitt risafyrirtæki í heildsölu og nokkur smærri; engin samkeppni, klassísk fákeppni sem færir örfáum hundruð milljónir króna árlega upp úr verslun með lyf, fyrst og fremst skattfé sem ráðstafað er til heilbrigðismála.

Í Færeyjum er það kerfi að lyfjaverslun ríkisins sér um innflutning lyfja og ríkisrekin apótekarakeðja sér um smásöluna. Hvort tveggja er undir stjórn apótekara ríkisins, einskonar landlæknisembætti; þ.e. stýrt af faglegri þörf fremur en viðskiptalegri gróðasókn. Fyrir nokkrum árum kölluðu Færeyingar til sín sérfræðinga frá mörgum löndum til að aðstoða sig við að fara úr þessum kerfi yfir einkavædda lyfjaverslun. Niðurstaða sérfræðinganna var: Ekki snerta þetta, þið búið við fullkomið kerfi. Einkavæðing lyfjaverslunar hefur ekki skilað nokkurri þjóð ódýrari lyfjum eða betri þjónustu. Við eigum að fara færeysku leiðina í lyfjaverslun, finnsku leiðina í skólamálum, bresku leiðina í heilbrigðismálum (NHS, ekki starfsgetumat) og dönsku leiðina í skattlagningu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: