Guðrún Hafsteinsdóttir: „Viljum ekki sjá að allir fjölmiðlar séu ríkisstyrktir“
Alþingi böðlast enn með fjölmiðlafrumvarpið. Það voru átök á Alþingi í gær þegar þingið afgreiddi málið til nefndar. Hér á eftir eru atkvæðaskýringar helstu forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisútvarpið er í algjörri yfirburðastöðu.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður: „Ástandið á fjölmiðlamarkaði hér á Íslandi er algerlega óviðunandi og það höfum við rætt lengi. Það hefur verið rætt í þessum sal og reynt var að bregðast við því með, vil ég segja, þeim lögum sem við í Sjálfstæðisflokknum höfum verið ósátt við, enda viljum við ekki sjá ríkisvæðingu á öllum fjölmiðlum á landinu. Við viljum ekki sjá að allir fjölmiðlar séu ríkisstyrktir. Ráðherra hefur boðað endurskoðun á þessu fyrirkomulagi í heild. Það hefði farið betur á því ef þetta hefði verið látið liggja núna að óbreyttu og þá farið í þessa heildarendurskoðun og tekið tillit til málsins. Þannig að ég mun vera á gulu í þessu máli.“
Ólafur Adolfsson þingflokksformaður: „Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að íslenskur fjölmiðlamarkaður sé sjúkur. Við erum með þá stöðu uppi að við erum með Ríkisútvarpið sem er í algjörri yfirburðastöðu á þessum markaði og því auðvitað fullkomlega eðlilegt að við hugum að því að styrkja minni fjölmiðla í þessari baráttu. Það er í rauninni eina ástæðan fyrir því að við Sjálfstæðismenn ákváðum reyndar að vera á gulu í þessu máli. Ég vil nefna það að á meðan við erum í þeirri stöðu að Ríkisútvarpið hefur yfirburðastöðu munum við ekki jafna leikinn hér nema með því að styrkja minni fjölmiðlana.“
Heitir ekki skattur.
Jens Garðar Helgason varaformaður: „Það skýtur skökku við að þegar hér er talað um tímabundna framlengingu meðan verið sé að endurskoða fjölmiðlaumhverfið í heild eigi í raun að halda þessu óbreyttu nema að lækka framlög til þeirra fjölmiðla sem reyna þó að standa uppi í hárinu á Ríkisútvarpinu. Það skýtur skökku við í ljósi þeirra ummæla sem hafa verið látin falla af stjórnarliðum um þau fyrirtæki. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég er ekki mjög bjartsýnn fyrir hönd einkarekinna fjölmiðla í landinu af því að nú er verið að boða streymisveitnaskatt á alla einkarekna fjölmiðla, alla fjölmiðla nema Ríkisútvarpið. Og hvað heitir þessi streymisveitnaskattur? Jú, hann heitir ekki skattur, í nýyrðasmíði ríkisstjórnarinnar heitir hann menningarframlag. Menningarframlag — einkareknir fjölmiðlar í landinu ættu því ekki að vera mjög vongóðir um það hver framvindan verður í endurskoðun á umhverfi fjölmiðla á Íslandi.“