- Advertisement -

Gunnar Þórðarson er borgarlistamaður 2014

Menning Á þjóðhátíðardeginum 17. júní útnefndi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Gunnar Þórðarson tónlistarmann Borgarlistamann Reykjavíkur 2014. Útnefningin fór fram í Höfða og gerði Einar Örn Benediktsson fráfarandi formaður menningar- og ferðamálaráðs grein fyrir vali ráðsins á borgarlistamanni. Við þetta tækifæri var listamanninum veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé og Þóra Einarsdóttir og Snorrri Sigfús Birgisson fluttu aríu úr óperunni Ragnheiði eftir Gunnar.

Gunnar Þórðarson er litríkt og afkastamikið tónskáld, snjall gítarleikari, hljómsveitarstjóri, útsetjari og upptökustjóri.  Hann er einn afkastamesti tónlistarhöfundur Íslendinga og hefur samið bæði dægurlög og sígilda tónlist – eftir hann liggja yfir 650 lög sem hafa verið gefin út á hljómplötum og auk þess hefur hann samið tónlist við kvikmyndir, söngleiki og leikverk.

Gunnar var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Hljóma, sem heillaði Bítlakynslóðina á árunum 1963 til 1969 og hljómsveitarinnar Trúbrot sem kom í kjölfar Hljóma. Árið 1998 var hann einn af stofnendum ,,Guitar Islancio“, sem var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur á menningarborgarárinu 2000 og ferðaðist víða um heim.

Á árunum 1982-2002 var Gunnar hljómsveitarstjóri á Broadway og setti þar upp fjölmargar vinsælar sýningar ásamt Agli Eðvarðssyni. Gunnar hefur samið tónlist við sjónvarpskvikmyndir s.s.  Djáknann frá Myrká og Steinbarn, kvikmyndatónlist eins og við Agnesi, Reykjavík Reykjavík og Óðal feðranna og tónlist við söngleikina Á köldum klaka og Örfá sæti laus.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á undanförnum árum hefur Gunnar Þórðarson snúið sér í auknum mæli að tónsmíðum og útsetningum stærri verka.  Í tilefni af Kristnitökuhátíðinni árið 2000 var frumflutt Heilög messa fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara eftir Gunnar og fimm árum síðar skrifaði Gunnar aðra messu sem hann helgaði minningu Brynjólfs biskups í tilefni af því að 400 ár voru liðin frá fæðingu hans. Árið 2009 hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika þar sem flutt var Söngbók Gunnars Þórðarsonar ásamt sjö einsöngvurum.

Óperan Ragnheiður eftir Gunnar, sem hann samdi við texta Friðriks Erlingssonar, var  frumflutt í konsertformi í Skálholtskirkju sumarið 2013. Íslensku Tónlistarverðlaunin völdu Gunnar Þórðarson tónhöfund ársins fyrir tónlistina í óperunni og uppsetningu óperunnar í Skálholti tónlistarviðburð ársins 2013.

Er Íslenska óperan frumsýndi svo Ragnheiði í Hörpu í ársbyrjun var hún sýnd við metaðsókn og fádæma lof áheyrenda og gagnrýnenda – jafnt innlendra sem erlendra. Uppsetning Íslensku óperunnar var útnefnd til tíu Grímuverðlauna, og á Grímuverðlaununum í gærkvöldi hlaut Ragnheiður þrjár grímur þar sem hún var m.a. útnefnd sýning ársins og ópera Gunnars valin tónlist ársins 2014.  Gunnar hlaut Fálkaorðuna fyrir störf sín  í þágu íslenskrar tónlistar árið 2001.

 

Myndina tók Sigrún Eggertsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: