- Advertisement -

„Hæstiréttur er búinn að segja það“

„En ég er bara sjálf þeirrar skoðunar að það sé okkar vinna, að það sé okkar hlutverk hér á Alþingi að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar.“

Þórdís kolbrún Reykfjörð gylfadóttir.

Alþingi Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fluttu fínustu ræðu í umræðunum um bókun 35. Hér eru tveir kaflar ræðunnar. Og hér má lesa alla ræðu fyrrverandi utanríkisráðherra.

„Því er haldið fram að þetta sé í raun ekki vandamál, að það sé einfalt og alla vega minni skaði heldur en að samþykkja frumvarpið að menn leiti einfaldlega réttar síns ef á þeim er brotið. Það finnst mér ótrúlega hæpin nálgun. Mér finnst hún ekki virðingarverð, að segja við hinn almenna borgara að ef hann verður af réttindum sem hann sannarlega á að geta gengið að vísum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þá þurfi hann einfaldlega að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Í fyrsta lagi felst í því gríðarlega mikið ójafnvægi — aflsmunur einstaka borgara úti í samfélaginu og ríkisins, fyrir utan það hversu mikil vinna það er. Það er kostnaðarsamt, það tekur tíma og það er ekki á allra færi. Það sem þú ert þá að segja er að þú ert í rauninni að gera kröfu til almennra borgara um að þeir hafi fulla yfirsýn yfir það hvaða réttindi eru tryggð í íslenskum lögum og hvaða réttindi eru tryggð í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem viðkomandi borgari ætti sannarlega ef þingið hefði bara staðið rétt að málum, fyrir utan það síðan að jafnvel þótt borgari fari þá leið þá sjáum við af dómaframkvæmd að vegna þess að bókunin er ekki réttilega innleidd að mati æðsta dómstóls á fullvalda og sjálfstæðu Íslandi hafi dómstóllinn ekki heimild til þess að dæma þeim borgara í hag ef reglurnar eru ívilnandi eða réttindin eru ívilnandi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að dómstólar geta jú bara dæmt eftir gildandi lögum. Þannig að fyrir utan hvað það er ósmart þá er það heldur ekki alltaf einu sinni mögulegt, jafnvel þótt borgari fari fyrir dóm með mál, þetta virkar flókið. Og er það.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Af hverju núna?

Lesum annan kafla úr ræðunni:

„Það er mikið gert úr því að þetta hafi jú ekki verið vandamál, og hvers vegna núna? Það er alveg hægt að flytja langa ræðu um þróun hæstaréttardóma, dómafordæmi o.s.frv. í gegnum þessi 30 ár, hvernig samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur aukist að umsvifum og fleiri þættir teknir þar undir og hvernig hann hefur þróast o.s.frv. en það er líka bara hægt að segja: Af hverju núna? Af hverju er það mikilvægt? Vegna þess að Hæstiréttur er búinn að segja það. Hæstiréttur segir að bókunin sé ekki réttilega innleidd. Þar af leiðandi er einn aðili á Íslandi sem getur bætt úr því. Það er löggjafinn á Íslandi sem getur bætt úr því.

Hinn valkosturinn er, eins og er líka ákveðin stemning fyrir, að gera ekki neitt. Það er alveg ákvörðun. En þá ertu að gera það vitandi að málið mallar þá og fer áfram, fer til Brussel og þar komast menn að einhverri niðurstöðu. Það er alveg hægt að ákveða það, það er alveg hægt að bíða eftir slíkri niðurstöðu og taka þá málið aftur þegar komin er skýr afstaða þaðan.

Það er líka hægt að fá skýra afstöðu þaðan og gera það samt ekki og taka bara einhverjum pólitískum afleiðingum af því, sem ég teldi mjög óskynsamlegt. En ég er bara sjálf þeirrar skoðunar að það sé okkar vinna, að það sé okkar hlutverk hér á Alþingi að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar þegar hann dæmir í máli og segir að bókunin sé ekki réttilega innleidd, sem þýðir að það er þá löggjafans að bæta úr því,“ sagði Þórdís Kolbrún.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: