- Advertisement -

„Hæstvirtur forsætisráðherra. Er þetta boðað réttlæti?“

…sem sýndi að fátækt barna hefur aukist milli ára og búa nú rúm 13% barna við fátækt.

„Samfylkingin er jafnaðarflokkur og leggjum við höfuðáherslu á að jafna kjör almennings þannig að við upprætum fátækt, dreifum byrðunum og að okkar sameiginlega velferðarkerfi styðji við þá sem á þurfa að halda. Þannig samfélag viljum við byggja og með því auka hagsæld fyrir okkur öll, líka þau sem ekki þurfa stuðninginn. Í vikunni birtist ný skýrsla Evrópuhóps Barnaheilla um Ísland sem sýndi að fátækt barna hefur aukist milli ára og búa nú rúm 13% barna við fátækt. Þar kemur einnig fram að hvorki sé uppi stefna né áætlun hér á landi til að uppræta fátækt. Í viðtali við dósent við Háskólann á Akureyri í gær kom einnig fram að nærri helmingur íbúa landsins af erlendum uppruna býr við fátækt. Á sama tíma heyrum við af metári í fjármagnstekjum og metarðsemi hjá stórútgerðinni og bönkunum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir.

„Við þurfum á tímum óðaverðbólgu að sækja fjármagn þangað sem það er að finna en hæstvirtur forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna hefur leitt hér ríkisstjórn undanfarin fimm og hálft ár þar sem stefna Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum ræður för. Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur talað um þjóðarsátt en það verður engin þjóðarsátt ef ríkisstjórnin situr auðum höndum og byggir ekki upp réttlátt kerfi. Svo að dæmi sé tekið þá greiddi eitt sjávarútvegsfyrirtæki 5,4 milljarða í arð til eigenda sinna bara á síðasta ári. Ef við setjum þetta í samhengi þá er þetta sama tala og þetta sama fyrirtæki hefur greitt í veiðigjöld samtals frá árinu 2016 — í sjö ár,“ sagði Helga Vala og svo þetta:

„Hæstvirtur forsætisráðherra. Er þetta boðað réttlæti? Hvernig getur það verið góð hagstjórn að verja breiðu bökin en ná ekki að styðja við þá sem þurfa?“

…alþjóðleg gögn sem sýna að óvíða er betra að vera barn en á Íslandi…

Katrín Jakobsdóttir svaraði: „Ég vil segja það, af því að hluta til er verið að kalla eftir stefnumótun eins og háttvirtur þoingmaður Helga Vala Helgadóttir bendir á, og ítreka að vegna þeirra laga og tillagna sem voru samþykktar hér á síðasta þingi þá er hafin vinna við þessa stefnumótun undir forystu hæstv.irts mennta- og barnamálaráðherra þar sem m.a. verður tekið tillit til efnahagslegra þátta því að sjálfsögðu hafa þeir áhrif á stöðu barna á Íslandi. Þetta snýst ekki bara um hvaða þjónusta er í boði heldur líka hina efnahagslegu stöðu. Þó að við höfum alþjóðleg gögn sem sýna að óvíða er betra að vera barn en á Íslandi þá er að sjálfsögðu hægt að gera betur. Það er hluti af því sem við höfum verið að gera og það er hluti af því sem við þurfum að halda áfram að gera. Þótt við höfum lengt fæðingarorlof, svo að dæmi sé tekið, sem er ein af þeim aðgerðum sem hefur verið bent á, þá erum við ekki búin að brúa umönnunarbilið sem er mjög þungur tími í lífi barnafjölskyldna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

„Háttvirtur þingmaður bendir líka á arðgreiðslur annars staðar í samfélaginu og ég vil að sjálfsögðu segja það hér að nú stendur líka yfir mikil vinna, undir forystu hæstvirts matvælaráðherra, þar sem er verið að takast á við nákvæmlega þessar spurningar um fjárhæð veiðigjalda. Við erum að sjá gríðarlega háar arðgreiðslur sem eru umfram það sem þessi fyrirtæki eru að skila til samfélagsins í formi veiðigjalda, þó að þau greiði auðvitað aðra skatta og gjöld líka. Það er gríðarlega mikilvægt að við sjáum niðurstöður úr þessari vinnu. Ég hef fulla trú á þeirri vegferð sem hæstv. ráðherra hefur lagt upp með sem snýst um að skapa sem mesta sátt. En ég veit það líka vel að það verður aldrei full sátt um þessi mál. Krafan hlýtur að vera sú að þessi fyrirtæki, sem eru að nýta okkar sameiginlegu auðlind, skili sanngjörnum hluta til samfélagsins sem á auðlindina.“

…eigendur eins fyrirtækis greiða sér nærri 6 milljarða arð búa 10.000 börn við fátækt..

Ég þakka hæstvirtum forsætisráðherra fyrir svarið. Auðvitað fögnum við velgengni útgerðarinnar eins og allra fyrirtækja í landinu. En fögnum líka velsæld alls fólks, við þurfum að stuðla að henni. Það er gott að einhver áform eru uppi um að skoða eitthvað í ráðuneytunum, en það gerist ekkert með því að snúa blinda auganu að stórkostlegum arðgreiðslum út úr einni grein sem byggist á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Á sama ári og eigendur eins fyrirtækis greiða sér nærri 6 milljarða arð búa 10.000 börn við fátækt, heilbrigðiskerfið er í verulegum vanda, lífeyristakar neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og húsnæðisvandinn er alltumlykjandi. Á þessu sama ári og 6 milljarðar fara til eiganda eins fyrirtækis eru biðlistar eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu lengri en nokkru sinni og meira að segja biðlistar eftir því að komast í fangelsi til að afplána dóma sem svo fyrnast vegna skorts á fangarýmum.

Hæstvirtur forsætisráðherra, með auknum ójöfnuði í dag í boði ríkisstjórnarinnar minnkar hagsæld okkar allra. Það er staðreynd og það verður að bregðast við núna en ekki í lok þessa kjörtímabils eða á því næsta,“ sagði Helga Vala.

…þá værum við komin á betri stað í þessum málum ef við næðum saman um slíkt mikilvægt ákvæði.

Forsætisráðherra svaraði aftur: „Það er einmitt mikilvægt að við horfum á það sem hefur verið gert því að við erum svo sannarlega ekki á núllpunkti. Háttvirrtur þingmaður ræðir hér um heilbrigðiskerfið, en þá verð ég líka að segja að það má ekki horfa fram hjá því að það var þessi ríkisstjórn sem fór í markvisst átak; áætlun um að draga úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Markmiðið er að koma okkur á par við Norðurlöndin og það er að ganga eftir. Við þetta höfum við haldið okkur og auknir fjármunir hafa verið settir í þetta í hverjum fjárlögum undanfarin ár til þess að ná þessum kostnaði niður. Sama má í raun og veru segja um fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins almennt.

Síðan vil ég segja og get ekki stillt mig um það, að hér höfum við auðvitað oft tekist á um ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir þjóðarinnar. Stundum hefur mér þótt sú umræða fara að snúast um smærri atriði í þeim málum og nákvæmar útfærslur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri mun betra ef við hefðum getað komið okkur saman um að árétta í stjórnarskrá þjóðarinnar ákvæði um sameiginlega auðlind allrar þjóðarinnar. Það væri óskandi að við gætum náð því.  Af því að háttvirtur þingmaður talar um þetta kjörtímabil, þá værum við komin á betri stað í þessum málum ef við næðum saman um slíkt mikilvægt ákvæði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: