Pawel Bartoszek, formaður utanríkismálanefndar á Alþingi, sagði þetta í dag:
Hætta á árás. Leitið skjóls. Þessi orð ómuðu úr símtækjum erlendra þingmanna sem höfðu komið sér fyrir á áheyrendapöllum úkraínska þingsins til að fylgjast með minningarathöfn í tilefni af því að þrjú ár voru liðin frá allsherjarinnrás Rússa inn í landið. Hætta á árás. Leitið skjóls. Sírenuvæl þar undir. Og jú, úkraínskir þingmenn ásamt okkur erlendu gestunum fylktu liði niður í kjallara þinghússins þar sem beðið var í um klukkutíma eftir að þingfundur gæti hafist.
Þetta er veruleikinn sem þingmenn úkraínska þingsins þurfa oft að búa við, að hlé sé gert á fundum vegna loftárása. Tökum eftir að þetta átti sér stað á þeim tíma þegar fjölmargir erlendir gestir, þingmenn, öll framkvæmdastjórn ESB, 13 þjóðarleiðtogar, þ.m.t. hæstv. forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, voru stödd í Kyiv.
Nóttina þar áður voru gerðar einhverjar mestu loftárásir í Kyiv frá upphafi stríðs. Sama var raunar uppi á teningnum þegar fjármálaráðherra Bandaríkjanna var í heimsókn nokkrum dögum áður. Árásaraðilinn virðir ekki góðan vilja, táknræn skref eða heiðursmannasamkomulag. Hann virðir bara vald. Það er ekki sanngjarnt að þeir sem lifa við stöðugar loftárásir, brot á alþjóðalögum, stríðsglæpi og stórfelld barnarán, séu sakaðir um að vilja ekki frið, ekki hinir.