- Advertisement -

Hafa ekki vilja til að bæta kjör aldraðra

Stjórn KJ vill ekkert gera til þess að bæta kjör aldraðra.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Í þætti Hringbrautar, Lífið er lag, í fyrradag, sem fjallar um málefni aldraðra, var rætt við Ellert B. Schram, formann FEB í Rvk. Fjallað var um starfshóp þann, sem skipaður var af félagsmálaráðuneytinu til þess að fjalla um bætt kjör aldraðra. Stjórn FEB gekk á fund forsætisráðherra til þess að óska eftir skipan starfshópsins og við því var orðið þó það drægist í nokkra mánuði að koma starfshópnum á koppinn. Þáttagerðarmaður Hringbrautar spurði Ellert hvort starfshópurinn hefði skilað áliti og hvort einhver jákvæð niðurstaða hefði orðið.
Niðurstaðan er nokkuð á reiki. En samkvæmt frásögn Ellerts er helst að skilja, að bráðabirgðaniðurstaða sé komin. Hún er sú, að fyrst eigi að afgreiða þá,  sem hafa skert búseturéttindi í augum Tryggingastofnunar en af þeim sökum hafa þessir einstaklingar mjög lágan lífeyri og talsvert lægri en þeir hafa sem eru með full búseturéttindi. Ellert sagði, að ekki væri ljóst hvað ætti að afgreiða mál þessara einstaklinga hratt!

Það,sem um er að ræða, er þetta: Starfshópurinn ákvað að afgreiða fyrst lífeyri þeirra eldri útlendinga, sem sest hafa að á Íslandi en hafa ekki full búseturéttindi á Íslandi svo og eldri Íslendinga, sem búið hafa talsverðan tíma erlendis og hafa því ekki fullan búsetutíma á Íslandi. Starfshópurinn afgreiddi hins vegar ekki íslenska eldri borgara, sem alltaf hafa búið á Íslandi og hafa því fullan búsetutíma hér. Talað var um að fjalla um mál þeirra seinna!!!.
Þetta er með ólíkindum. Loks þegar stjórn KJ lætur sem hún ætli að sinna málefnum aldraðra eftir mikið japl og jaml og fuður er það gert í skötulíki. Í fyrsta lagi þurfti engan starfshóp til þess að fjalla um þetta mál. Sú aðferð var af stjórnvöldum vísvitandi notuð til þess að tefja málin. Það lágu allar upplýsingar fyrir hjá velferðarráðuneyti, Tryggingastofnun, LEB og FEB. Það vantaði aðeins ákvörðun stjórnvalda um að gera eitthvað til þess að bæta kjör aldraðra. Og þær ákvarðanir vantar enn. Og það breytist ekkert þó skipaðir verði fleiri starfshópar. Stjórn KJ vill ekkert gera til þess að bæta kjör aldraðra. Það er vandamálið en ekki starfshópurinn sem „starfaði“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: