- Advertisement -

Hafa fengið peninga í bílförmum

„Heimilin sem mest skulda og minnst eiga hafa borið allar byrðarnar í baráttunni gegn verðbólgunni á meðan aðrir hafa hagnast stórlega á henni.“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

„Það eru til gríðarlega miklir fjármunir í þessu þjóðfélagi og mikið af þessu fé er í höndum aðila sem hafa hagnast gríðarlega á verðbólgunni, ekki af því að þeir séu svo svakalega klárir heldur hafa þeir fengið fjármuni heimilanna til sín í bílförmum,“ sagði Ásthildur Lóa Þórhallsdóttir Flokki fólksins í umræðu um fjáraukalög.

„Tugþúsundir heimila á Íslandi eru komin fram á ystu nöf. Það að tafir verði á lækkun vaxta getur nægt til að ýta þeim fram af brúninni því að þau hafa einfaldlega ekki úthald í meira. Ef ekki verður bara um tafir á lækkun vaxta að ræða heldur enn meiri hækkanir þarf ekki að spyrja að leikslokum,“ sagði hún.

„Heimilin sem mest skulda og minnst eiga hafa borið allar byrðarnar í baráttunni gegn verðbólgunni á meðan aðrir hafa hagnast stórlega á henni. Auknar lántökur ríkissjóðs munu hafa bein áhrif á verðbólguna sem mun án tafar gefa Seðlabankanum fleiri ástæður til frekari vaxtahækkana. Í frumvarpi fjármálaráðherra er því ekki slegið föstu hversu mikið þurfi að draga á þessa lánalínu en reynslan kennir manni að það sé líklegra en ella að gengið verði á hana að fullu. Það er hægt að vinna þetta með öðrum hætti, t.d. með því að skattleggja þann gríðarlega hagnað sem stórfyrirtæki hafa sýnt á undanförnum árum með einhverjum hætti. Það er hreinlega óeðlilegt að skattleggja ekki þann gríðarlega hagnað sem bankarnir hafa fengið á undanförnum árum beint frá heimilum landsins.“

Ásthildur Lóa hélt áfram:

„…að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs.“

„Burt séð frá öllu öðru mun aukin eftirspurn um kannski 1.000 heimili hafa veruleg áhrif á eftirspurn á fasteignamarkaði og þar með fasteignaverð. Hægt er að fyrirbyggja slík áhrif með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs. Flokkur fólksins hefur lengi mælt fyrir því en um það eru ekki allir á Alþingi sammála. Hins vegar má færa rök fyrir því að innflæði Grindvíkinga á húsnæðismarkaðinn sé þess eðlis að það eigi ekki að hafa áhrif á vísitöluna almennt, enda einstakur viðburður sem mætti kalla einskiptisaðgerð vegna utanaðkomandi óvæntra atburða. Hækkun húsnæðisverðs vegna þessa innflæðis og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að auðvelda Grindvíkingum fasteignakaup ætti því alls ekki að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Sú hækkun sem kann að verða vegna þessara atburða hefur lítið sem ekkert að gera með kostnaðinn við það að byggja nýtt húsnæði eða viðhalda gömlu. Sem fyrirbyggjandi aðgerð þarf því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, a.m.k. aftengja hann á meðan áhrif þeirra aðgerða sem varða Grindavík eru sem mest.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: