- Advertisement -

Hagnaðurinn er fluttur þráðbeint úr landi

„Það liggur ekkert á, að auka hagvöxt á Íslandi. Seðlabankinn hefur verið að rembast eins og rjúpan við staurinn að draga úr honum með hækkun vaxta.“

Marinó G. Njálsson.

„Norðmenn eru á fullu að vara okkur Íslendinga við að gera ekki sömu mistök og þeir. Ég sat erindi um daginn, þar sem varað var við mistökum vegna vindmyllugarða og á Visir er frétt um fund sem var í gær um laxeldi í sjó,“ skrifaði Marinó G. Njálsson.

„Rányrkja er orðið sem kemur mér í hug, þegar bæði þessi mál koma upp. Farið er um sveitir og firði og náttúruauðlindir eyðilagðar vegna þess, að erlendir fjárfestar sjá hagnaðarvon. Hagnaður sem síðan er fluttur jafnhratt úr landi.

Þetta er rányrkja, vegna þess að viðkomandi er alveg sama um landið og firðina. Tiltölulega fáir einstaklingar fá vinnu við þetta, takmarkaðir skattar greiddir, en ríkissjóður á að standa undir innviðauppbyggingu til að auðvelda rányrkjuna.

Ég vona að næsta ríkisstjórn stígi á bremsuna.

Stjórnmálamenn halda að þetta sé til hagsbóta fyrir landsmenn. Vilja hafa vitið fyrir þeim. Ég vona að ekki sé borið fé á fólk, en það var gert í Noregi, samkvæmt fyrirlesaranum um vindmyllurnar. Sveitastjórnarmenn voru settir á jötuna og ákvarðanir teknar þvert á fyrri stefnu þeirra. Viðurkvæðið var, að þetta myndi skapa svo mörg störf, en svo reyndist allt meira og minna fjarstýrt, jafnvel utanlands frá.

Það liggur ekkert á, að auka hagvöxt á Íslandi. Seðlabankinn hefur verið að rembast eins og rjúpan við staurinn að draga úr honum með hækkun vaxta. Uppbygging atvinnutækifæra þarf að vera í samræmi við íbúafjölgun, en ekki að treysta á aðflutt vinnuafl, eins og hefur verið undanfarna tvo áratugi. Jafnvægi þarf að vera á milli fjárfestinga í atvinnulífinu, þess sem innviðir landsins ráða við, uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og að maður tali nú ekki efnahagsleg markmið um verðstöðugleika, lága vexti og gengisstöðugleika.

Ég vona að næsta ríkisstjórn stígi á bremsuna, fari í stefnumótun og taki stjórnina. Erlendir og innlendir lukkuriddarar eiga ekki að ráða för af því að þeir eru frekastir og eru með fjármagn á bak við sig. Og haldi einhver, að almenningur njóti góðs af, þá er það mikill misskilningur. Hagnaðurinn rennur til örfárra aðila, þ.e. það af honum sem ekki fluttur úr landi með fölskum ráðgjafareikningum og vöxtum af framkvæmdafjármögnun.“

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi Marinós.

Fyrirsögnin er Miðjunnar sem og myndavalið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: