- Advertisement -

Hagstofa hinna þurfandi gefur út hungurmörk:

Það er spurning hvort við eigum ekki að koma saman við þessi hungurmörk; fara í hungurgöngu.

Gunnar Smári Egilsson skrifar:

Einstæð móðir með tvö börn, sem hefur 300 þús. kr. í mánaðarlaun borgar 12 þús. kr. í lífeyrissjóð, 2.100 kr. í félagsgjald og 49.940 kr. í skatt. Eftir standa 235.960 kr. sem þessi verkakona fær útborgað. Því til viðbótar fær fjölskyldan 68.724 kr. í meðlag með börnunum og 77.625 kr. í barnabætur, samtals 382.309 kr. til ráðstöfunar eftir skatta og frádrátt.

Meðalfermetraverð á þriggja herbergja íbúð mið- og vesturbæ Reykjavíkur, þar sem flestar leiguíbúðir eru, er í dag 2.801 kr. fermetrinn eða 210.075 kr. fyrir 75 fermetra íbúð. Einstæð móðir og tvö barna hennar með 300 þús. kr. tekjur á mánuði plús meðlag fær 50.261 kr. í húsnæðisbætur. Reikna má með 15 þús. kr. í hússjóð, rafmagn, hita og annan húsnæðiskostnað. Nettó húsnæðiskostnaður er því 174.814 kr. á mánuði.

Ef annað barnið er í dagvist meðan mamman vinnur þá kostar það fjölskylduna 21.512 kr.

Eftir skatt, lífeyrissjóð, launatengd gjöld, húsnæðiskostnað og dagvist hefur fjölskyldan því 185.983 kr. fyrir öðrum útgjöldum; fæði, klæði, samgöngum o.s.fv.

Samkvæmt framfærsluviðmiðum Umboðsmanns skuldara á einstæðu foreldri með tvö börn að duga 236.730 kr. á mánuði fyrir öðrum kostnaði en dagvist, húsnæðiskostnaði og tilheyrandi. Það gera 8.455 kr. á dag.

En eins og áður sagði hefur þessi einstæða móðir og börnin hennar aðeins 185.983 kr. til ráðstöfunar. Fjölskyldan á því aðeins fyrir framfærslu sinni í febrúar fram að miðnætti föstudagskvöldið 22. nóvember. Þegar klukkan slær eru allir peningar búnir og fram undan helgi og heil víka, allt fram á föstudaginn 1. mars þegar launin koma.

Hungurmörk þessarar fjölskyldu liggja því á miðnætti föstudaginn 22. febrúar. Hún getur lifað þangað til, en ekki eftir það. Frá aðfaranótt laugardagsinsi fram á föstudagseftirmiðdag mun þessi einstæða móðir og börnin hennar tvo svelta. Þannig er Ísland í dag.

Það er spurning hvort við eigum ekki að koma saman við þessi hungurmörk; fara í hungurgöngu, halda hungurvöku í tilefni þess að fram undan er rúm vika sem tekjulægsta fólkið er dæmt til hungurverkfalls?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: