- Advertisement -

Halldór Benjamín fyrsta fórnarlambið?

Hann mislas stöðuna algjörlega.

Gunnar Smári skrifar:

Okei, ég ætla að spá. Fyrsta fórnarlamb yfirstandandi kjaradeilna verður Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri SA. Hann missir vinnuna. Hann mislas stöðuna algjörlega. Eins og reyndar Bjarni Ben líka, en það er erfiðara að reka hann. Eitt er að reyna að tala verkalýðshreyfinguna niður þegar hún er ekki risin upp. En þegar hreyfingin er risin upp einhuga að baki forystunni, þá geta fyrirtækjaeigendur ekki annað en samið.

Það má lesa af sögu síðustu hundrað ára. Að halda að hægt sé að mæta upprisu verkalýðshreyfingarinnar nú eins og Reagan flugumferðarstjórum 1981 (fámenn stétt hálaunamanna) eða Thatcher mætti kolanámumönnum 1984-85 (ríkisstyrkt deyjandi atvinnugrein) er glórulaus mislestur manna án jarðsambands.

Við erum ekki stödd við upphaf nýfrjálshyggjunnar heldur nokkrum árum eftir hrun hennar. Veik fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa ekkert efni á verkfalli. Þau vilja að samið sé strax og að ríkisstjórnin dragi þau í land. Það er ekki verkalýðshreyfingin sem setur þessi fyrirtæki í hættu heldur mislestur þeirra Halldórs Benjamíns og Bjarna Ben.

Úr þessu mun verkalýðshreyfingin styrkjast með hverjum deginum, staða SA og ríkisstjórnarinnar mun versna hratt. Staðan versnaði meðan ég var að skrifa þetta. Svo hratt versnar hún.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: