- Advertisement -

Hann var mjög siginn að aftan

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Hef lengi talið, að fólk ætti að hafa legubekki á skrifstofum og leggja sig smástund eftir hádegið. Þetta er mannskepnunni eðlilegt og þetta gerðu forfeður okkar og mæður. Við nútímamenn höfum í fáfræði talið þetta bundið við suðurlönd. En allir lögðu sig. Langur samfelldur vinnudagur kemst líklega á með iðnbyltingunni.

Líklega var það 1990 eða 91 sem ég byrjaði að semja og flytja í útvarpið örstuttar smásögur sem ég kallaði örsögur. Hef haldið þessu áfram alla tíð síðan, nú seinast á Fb.

Í Krepputungu, bækistöð okkar sumarið 1971, sem Björn Sigfússon kallaði Skeggjastaði, vorum við svo heppnir að hafa kamar. Hann var hannaður og smíðaður af dverghaganum Völundi Jóhannessyni á Egilsstöðum og var því nefndur Völundarhús. Gap var á kilinum og loftaði svo vel að aldrei var í honum fýla. Í þessum kamri var hilla sem notuð var fyrir skeini og héraðsbókasafn Krepputungu. Safnkosturinn var tvær bækur, Pornochefen og Iceland in hurry. Grasafræðingur nokkur sem kom á staðinn og náði ekki að klára klámhöfðingjann á kamrinum, stal bókinni þegar hann fór.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stundum er ég spurður af hverju ég sendi ekki sumt af því sem ég skrifa hér á Fb til birtingar í prentmiðlum. Því er til að svara að þótt mér þætti kannski sumt af þessu eiga erindi gæti ég ekki fylgt því eftir. Ég les ekki blöð og prentmiðla og óhjákvæmilega mundu mörg svör, athugasemdir og framhaldsgreinar fara fram hjá mér. Svo við það verður að una að þetta birtist bara hér og stundum á miðjunni hjá SME.

Mér hefur lengi verið hugstæður landroverinn sem hann Biggi vinur minn átti, Birgir Jónsson jarðfræðingur. Hann var mjög siginn að aftan en bilaði stundum á leið í mörkina en sjaldan á leiðinni heim, var heimfús. Þess vegna hét hann Sigfús.

Sumarið 1971 byrjaði ég að vinna að sumarlagi á Orkustofnun við jarðfræðirannsóknir. Ekki var aðbúnaður okkar sem unnum í óbyggðum góður og talsvert verri en útlendum farandverkamönnum er boðinn nú. Okkur þóttu Moelv húsin sem flutt voru inn vegna byggingar Búrfellsvirkjunar vera lúxushíbýli. Stundum vorum við í boddíum, gömlum strætisvögnum af Vellinum sem Jarðboranir höfðu breytt, ýmist í eldhúsvagn eða svefnvagn. Í svefnvagninum var olíuofn til hitunar. Mestan hita gaf hann ef stungið var dínamíttúpu inn í eldholið. Jobbi skaffaði eldsneytið sem brennur vel og engin sprengihætta var af því.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: