- Advertisement -

Haraldur vill að barnafólk spari meira

„Nú frábið ég mér hér ræður um það að það geti ekki allir sparað, ég geri mér fulla grein fyrir því.“

Haraldur Benediktsson.

„Ég ætla að gera þá játningu, virðulegi forseti, standandi hér í dag, að ég hefði ekki getað spáð því að við værum komin á þann stað í ríkisfjármálum sem við erum í dag, rétt ári síðar, ekki einu sinni þegar við vorum að afgreiða hér fjárlög fyrir síðustu jól, og við vorum að afgreiða fjárlög með umtalsverðum halla, tæpum 120 milljörðum, að við værum komin á þann stað að vera að ná frumjöfnuði þegar á þessu ári,“ sagði Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokki og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.

„Mér finnst það stórmerkilegt. Mér finnst mjög merkilegt að það horfi þannig í rekstri ríkissjóðs að hann sé hættur að safna skuldum þegar á þessu ári. Það undirstrikar fyrir mér fyrst og fremst að þau viðbrögð sem við beittum hér í skyndilegu áfalli vegna heimsfaraldurs hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Viðspyrnan er mun sterkari. Þetta er fjármálaáætlun sem er vitnisburður um sterka viðspyrnu, um öflugt, þróttugt efnahagslíf, um kraftmikið efnahagslíf sem er að fara hratt upp og ná fyrri styrk og stöðu. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum til þess við meðferð á þessari fjármálaáætlun hvort við getum mögulega gert enn betur og enn hraðar,“ sagði Haraldur,

„Nú frábið ég mér hér ræður um það að það geti ekki allir sparað, ég geri mér fulla grein fyrir því. En það er samt þannig, og fjármálaáætlunin vitnar um það, að hér er kaupmáttur gríðarlega sterkur þrátt fyrir allt og hann hefur verið varinn í gegnum þessi áföll. Það er mjög merkilegt,“ sagði Haraldur.

„Þess vegna ættum við ekki síður að vera að ræða, ekki bara um aðhald í rekstri ríkissjóðs heldur líka hvernig við getum hvatt til aukins sparnaðar barnafólks og hjálpað þeim og haft réttu hvatana í þeim efnum. Ég er ekki að mæla fyrir um skyldusparnað eða einhverjar þvingaðar aðgerðir til þess að fólk leggi til hliðar, heldur að það verði fyrst og fremst áhugavert að spara þannig að verði ekki hið sjálfsagða viðbragð fólks að það þurfi að eyða hverri krónu sem kemur inn á heimilið. En það er auðveldara um að tala en í að komast, ég geri mér fulla grein fyrir því. En ef við erum að tala um hvata, um stefnu, um áherslur, þá er þetta það sem ég sakna, að við séum ekki að tala meira fyrir því,“ sagði Haraldur Benediktsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: