- Advertisement -

Helmingur kennara við kennslu

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.

„Samkvæmt Hagstofu Íslands voru árið 2011 um 4500 kennarar með kennsluréttindi starfandi í grunnskólum landsins. Á sama tíma voru rúmlega 9000 með réttindi sem grunnskólakennarar. Nú eru útskrifaðir færri en þeir sem fara á eftirlaun. Að auki fer einhver fjöldi kennara til annarra starfa, aðallega eftir fyrsta starfsárið, sem er glatað tækifæri.“

Þetta sagði þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson Pírati á Alþingi í dag. Hann gat þess einnig að undanþágum, til handa ómenntuðum kennurum, hafi fjölgað mikið, næstum fimmfaldast á sex árum. Voru 56 kennsluárið 2011 til 2012 en eru nú 270.

„Nýútgefin skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að ekki dugi að fjölga kennaranemum, einnig verði að ná þeim aftur inn í skólana sem eru þegar kennaramenntaðir. Annars verður alvarlegur kennaraskortur strax árið 2031, eins og kemur fram í niðurstöðum Helga Eiríks Eyjólfssonar meistaranema og Stefáns Hrafns Jónssonar, prófessors við Háskóla Íslands, tæplega 7000 kennarar miðað við um 9000 í dag.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Með meiri fólksfjölgun,“ sagði Björn Leví, „…er meiri þörf fyrir kennara. Þá þyrftu um 70% allra kennara að vera starfandi sem slíkir til að manna allar stöður. Í dag er það tæpur helmingur. Árið 2031 er ekki fjarlæg framtíð. Það tekur fimm ár að klára nám í dag. Vandamálið verður að leysast á þessu kjörtímabili.“

Hann sagði mikilvægast að hafa gott menntakerfi. „Án menntaðra kennara erum við ekki með menntakerfi, hvort sem það er í opinberum rekstri eða einkarekstri. Óháð því hvaðan fólk kemur í pólitíkinni verðum við að vera sammála um það. Gott menntakerfi þarfnast kennara. Nemendur þarfnast kennara. Virði góðs kennara verður ekki mælt í peningum. Það sem góður kennari skilur eftir sig er ómetanlegt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: