- Advertisement -

Hér er mikil andúð á láglaunakonum og ekki síst á aðfluttum láglaunakonum

„Það eru gild rök fyrir því sem Sólveig segir.“

Guðmundur Ævar Oddsson prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.
Mynd úr Karphúsinu.
Hluti fjölmennar samninganefndar Eflingar, Halldór Benjamín Þorbergsson og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

„Ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um stéttaandúð eru ekki úr lausu lofti gripin að sögn sérfræðings í stéttarannsóknum. Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, segir rannsóknir styðja málflutning Sólveigar,“ segir í frétt í Fréttablaðinu í dag.

„Við upplifum mikla stéttaandúð, mikla andúð á láglaunakonum og ekki síst aðfluttum láglaunakonum,“ sagði Sólveig í Fréttablaðinu í gær sem telur ekki hlustað sem skyldi á sjónarmið Eflingar segir í fréttinni.

„Það eru gild rök fyrir því sem Sólveig segir,“ segir Guðmundur.

Hann segir að láglaunafólk og ekki síst aðfluttar konur hafi samkvæmt rannsóknum afar lága rödd í samfélaginu. Hinir velmegandi hafa meiri völd en hinir fátæku. Viðmið millistéttar hér á landi séu önnur en hjá þeim sem lægst launin hafa.

„Þetta er hópur sem situr neðst í virðingarstiganum um allan heim,“ segir Guðmundur Ævar.

Þá fylgi oft fordómar gagnvart láglaunahópum sem jafnvel birtist í mismunun innan heilbrigðiskerfisins.

„Stéttaskipting er sannarlega fyrir hendi hér á landi þótt hún sé kannski ekki eins ýkt og sums staðar annars staðar,“ segir Guðmundur Ævar. Hann segir að frekari rannsóknir þurfi til hér á landi á högum láglaunafólks og frekari stéttarannsóknir.

(Sem fyrr segir er hér stuðst við frétt í Fréttablaðinu í dag).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: