- Advertisement -

Hildur: Skýlaus krafa að upplýst verði hverjir keyptu í Íslandsbanka

„Allt frá bankahruninu hefur traust til bankakerfisins verið lítið. Þótt það fari smám saman batnandi mælist það samkvæmt nýlegri Gallup-könnun 23 prósent, sem er að sjálfsögðu ekki nógu gott. Bankakerfið er svo stór og mikilvægur þáttur af okkar ágæta samfélagi að það er nauðsynlegt fyrir það heildarsamhengi allt að um það ríki traust,“ sagði Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

„Í því samhengi langar mig að nefna nýlega sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka sem var í grunninn nauðsynleg og góð aðgerð. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni framkvæmd hennar þar sem ég hef engar forsendur til þess þar sem hún var alfarið í höndum sérfræðinga þeirrar sjálfstæðu stofnunar sem Bankasýslan er. Hins vegar skiptir gríðarlega miklu máli að um þessa framkvæmd ríki eins mikið gagnsæi og mögulegt er, og ekki síst hverjir það voru sem voru metnir sem fagfjárfestar. Auðvitað verður að fylgja lögum og reglum og bera virðingu fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem koma þar að, eins og persónuvernd, bankaleynd o.fl.“

Áfram hélt Hildur: „Það hlýtur að skipta máli að þessir fagfjárfestar voru ekki að stofna bankareikning í bankanum, þeir voru að kaupa í banka og það sem meira er ríkiseign. Það hlýtur að vera sjálfsagt að setja það í samhengi við allar þær reglur sem koma til skoðunar þegar meta á réttmæti þess að birta öll þessi gögn. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að þetta verði upplýst, ekki síst vegna mikilvægis þess að um þessa sölu ríki ekki óþarfa vantraust og þar með vantraust á bankakerfinu í heild.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: