„…nema þá að hún sé hreinlega að ýja að því að Flokkur fólksins, einn allra stjórnmálaflokka, með 29.000 atkvæði að baki sér og í ríkisstjórn, verði gerður gjaldþrota til að þóknast háttvirtum þingmanni.“
Inga Sæland.
„…frá því að ég var kosin á Alþingi Íslendinga 2017…“
Inga Sæland.
„Ég þakka háttvirtum þingmanni Hildi Sverrisdóttur fyrir afar góða fyrirspurn sem kannski er ekki alveg á rökum reist heldur er hún einhliða, en það breytir ekki þeirri staðreynd að ég lít á Fjölskylduhjálp Íslands sem algjöra grundvallarstoð í samfélaginu til þess einmitt að taka utan um okkar minnstu bræður og systur. Þess vegna var ég frekar döpur yfir því þegar ég veitti velferðarstyrki í mars síðastliðnum að Fjölskylduhjálp Íslands hafði ekki sent inn formlega umsókn og beiðni þar að lútandi sem í rauninni þarf að fylgja, það eru ákveðnar reglur sem við þurfum að fylgja til að geta veitt slíka styrki. Þess vegna hef ég í kjölfarið verið að reyna að finna það út hvernig mitt ráðuneyti sérstaklega getur komið til móts við Fjölskylduhjálp Íslands, enda er þessi þingmaður, núverandi hæstvirtur ráðherra sem hér stendur, sá sem hefur staðið hér hvað lengst og mest í pontu frá því að ég var kosin á Alþingi Íslendinga 2017 og hef í hverju fjáraukalagafrumvarpinu á fætur öðru óskað eftir því að veittur yrði frekari stuðningur til þeirra hjálparsamtaka sem styðja við okkar minnstu bræður og systur. Meginástæða þess að ekki hefur verið veittur þessi velferðarstyrkur í mars síðastliðnum frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu til Fjölskylduhjálparinnar var að því miður þá barst ekki formleg umsókn þar að lútandi. En ég get glatt háttvirtan þingmann Hildi Sverrisdóttur og alla aðra þingmenn að það er ekki það sama og að slengja í lás og ætla ekki að styðja við Fjölskylduhjálp Íslands,“ sagði Inga Sæland félagsmálaráðherra á Alþingi þegar hún svaraði Hildi Sverrisdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins.
Hildur lét sér ekki segjast og benti á að Flokkur fólksins hafi svo sem ekki uppfyllt öll skilyrði til að fá þá styrki sem flokkurinn hefur fengið. Gefum Hildi orðið:
„…þær 240 milljónir sem flokkurinn fékk í trássi við lög…“
Hildur Sverrisdóttir.
„Mér þykir vissulega áhugavert að hér sé því borið við að formreglum hafi ekki verið fylgt. Við vorum rétt áðan að ræða að ákveðin félagasamtök hafi fengið úthlutað 240 millj. kr. án þess að formreglum hafi verið fylgt. Ég beini því kannski til hæstvirts ráðherra, fyrir utan að það er vissulega gleðilegt ef hér er ýjað að því að það muni takast að finna einhvers konar fé til að aðstoða þessi samtök í sínu góða starfi, að hæstvirtum ráðherra er að sjálfsögðu í lófa lagið að stíga fram fyrir skjöldu og endurgreiða þær 240 milljónir sem flokkurinn fékk í trássi við lög og reglur ef það vantar peninga til þess að styðja við svona gott starf.“
Nú var fast skotið á Ingi og Flokk fólksins. Inga steig í pontu:
„Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir síðara andsvar, sem ég áttaði mig eiginlega ekki alveg á ef ég á að segja alveg eins og er, nema þá að hún sé hreinlega að ýja að því að Flokkur fólksins, einn allra stjórnmálaflokka, með 29.000 atkvæði að baki sér og í ríkisstjórn, verði gerður gjaldþrota til að þóknast háttvirtum þingmanni. En hins vegar er það svo að við þurfum að fylgja ákveðnum reglum þegar við erum að veita stuðning og styrki og það hefur komið í ljós og góðu fréttirnar eru þær að mjög mörg fyrirtæki okkar hafa einmitt gefið tugi tonna af mat til að styðja við okkar minnstu bræður og systur. Rekstrarvandi Fjölskylduhjálparinnar núna er meira sá að það er ónýtur frystiklefinn þeirra fyrir utan það að þau eru að borga mjög háa húsaleigu. Ég er að reyna að finna lausnir á því að koma á fyrirsjáanleika í þennan rekstur þannig að hann megi halda áfram að blómstra og þau séu ekki alltaf á hverju einasta ári í þeirri stöðu að vita ekki hvort þau geti staðið undir skuldbindingum sínum og haldið áfram að styðja við fátækasta fólkið í landinu.“