- Advertisement -

Hin hljóðláta helför Bjarna Benediktssonar

Hann bíður með glott á vör eftir því að heil kynslóð ellilífeyrisþega andist.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir skrifar:

Af hverju ætlar fullt af fólki að mæta í hungurgönguna á laugardaginn kemur?

Til að veita ríkisstjórninni viðurkenningu fyrir góðan aðbúnað tekjulágra Íslendinga?

Til að þakka fyrir að börn efnalítilla foreldra fela götin á skósólunum sínum með pappa og stela áleggi í Bónus af því þau eru svöng?

Til að hrósa fyrir margra daga bið eftir símatíma hjá lækni og tveggja til þriggja vikna bið eftir tíma hjá lækni?

Til að gleðjast yfir flótta fjölda Íslendinga til annarra landa?

Til að hrópa húrra yfir rándýrri leigu og fyrir fimm þúsund manns í húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu?

Til að fagna því að fá að greiða síðustu krónurnar okkar í vexti og verðbætur meðan bankarnir velta sér upp úr arðgreiðslum og dreifa hagnaði sínum með ofurlaunakerfi til stjórna og stjóra?

Til að klappa eldri borgurum á bakið af því þeir hafa ekki efni á tannlækni og glíma við elliglöp og aðra erfiða sjúkdóma í einangrun úti í bæ af því hvergi er pláss fyrir þá og kerfið sinnir þeim ekki?

Í Þýskalandi fór fram helför þar sem fólk var tekið af lífi án dóms og laga, eldri borgarar, geðsjúklingar, gyðingar, fötluð börn meira að segja. Löngu fyrir stríð skrifaði Hitler undir svokallað T4 skjal þar sem hann gaf leyfi til að slátra fólki sem hann taldi að væri byrði á ríkinu.

Hér á Íslandi fer fram hljóð helför. Fjármálaráðherra sem aldrei hefur þurft að loka götum á sínum skósólum með pappa, sem aldrei hefur þurft að stela áleggsbréfum í Hagkaup til að seðja sárasta hungrið, sem aldrei hefur þurft að leggja á sig erfiðisvinnu árum saman af því foreldrar hans höfðu ekki efni á að kosta hann til náms, þessi fjármálaráðherra fremur hljóða helför að illa stöddu fólki á Íslandi.

Hann bíður með glott á vör eftir því að heil kynslóð ellilífeyrisþega andist. Kynslóðin sem hefur ekki greitt alla sína ævi í lífeyrissjóð en greiddi í almannatryggingar í góðri trú og taldi víst að það yrði hlúð að þeim í ellinni. Kynslóðin þar sem mömmurnar hugsuðu um börn og bú og greiddu ekki í lífeyrissjóð á meðan en gáfu alla sína vinnu til ríkisins.

Kynslóðin sem hefur tapað stórfé á fjölda gengisfellinga, horft á launin sínn brenna upp á verðbólgubáli og tapað húsunum sínum í svikamyllu útrásarvíkinga. Kynslóðin sem lagði sig fram af heilindum fyrir land og þjóð. Hún er nú stödd í miðri helför Bjarna Benediktssonar sem opnar ekki ríkisbudduna fyrr en við erum dauð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: