- Advertisement -

Hluti af hertaktík Sjálfstæðisflokksins

Meginstoðir almennrar umræðu á Íslandi er mykjuhaugur, dý, mýri. Og það er blindþoka.

Gunnar Smári skrifar:

Kórónavírusinn kom með skíðafólki til Íslands og þótt það hafi ekki allt verið hátekjufólks, þá var ekki lágtekjufólk þar á meðal. En meir vitum við ekki. Öfugt við flestar þjóðir þá er sjaldan sem það er kannað hér hversu ólík kjör fólk býr við eftir stéttum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bretar eru með sína stéttagreiningu í öllum könnunum, meira að segja um fylgi flokka og afstöðu til stjórnmálaflokka (fyrir utan aldur og búsetu, sem ætíð fylgir með öfugt við hér, slíkar upplýsingar koma kannski einu sinni á ári eins og jólin fyrir áhugafólk um stjórnmál en þá oft á svo veikum grunni að lítið er við þær að gera). Hér er ekki einu sinni aðgengilegar upplýsingar um lífslíkum eftir stéttum, sem þó ætti að vera lykilforsenda heilbrigðrar umræðu um lífskjör, lífeyrisréttindi og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Hér vantar stéttagreiningu á menntakerfinu (er það aðeins fyrir millistéttirnar og þar fyrir ofan, falla börn lágstéttaforeldra úr námi?), húsnæðiskerfinu (getur ungt fólk ekki keypt sig burt úr okur-leigukerfinu nema með aðstoð foreldra?), varðandi örorku (hvaða stéttir fara helst á örorku upp úr miðri starfsævi, í hvaða stéttum er líkamlegt og andlegt álag vegna vinnu og fátæktar of mikið?) o.s.frv. Ég er ekki að biðja hér um stéttagreiningu á fjárlögum (sem þó er sjálfsögð krafa) heldur aðeins að Hagstofan gangi frá sínum grunnupplýsingum svo þær gagnist í alvarlega umræðu um skipan samfélagsins.

Íslensk samfélagsumræða fer af þessum ástæðum fram í myrkri, í þoku á góðum degi.

Íslensk samfélagsumræða fer af þessum ástæðum fram í myrkri, í þoku á góðum degi. Og hver er ástæðan? Sjálfstæðisflokkurinn, sem almenningur hefur snúið baki við en forysta annarra flokka heldur við völd, hefur alla tíð verið á móti félagslegum rannsóknum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að samfélagsumræðan sé keyrð áfram á delluhugmyndum,, hindurvitnum og fordómum; það er eina leiðin fyrir þessa hagsmunaklíku hinna fáu til að halda völdum.

Það er einmitt hluti af hertaktík Sjálfstæðisflokksins að lyfta undir áróður Viðskiptaráðs, SA, greiningardeilda bankanna og annarra slíkra gervi-þekkingarfyrirbrigða í almennri umræðu, á kostnað raunverulegrar þekkingar á samfélaginu. Nokkuð sem fjölmiðlar beygja sig undir, Ríkisútvarpið eiginlega enn frekar en aðrir miðlar.

Ef þið mynduð safna saman fréttum og greiningar á samfélaginu frá Ríkisútvarpinu og mynduð flokka það eftir því hvort þær kæmu frá óháðum rannsóknarstofnunum á borð við Hagstofu eða háskóla annars vegar eða hins vegar frá áróðursbatteríum auðvaldsins (Viðskiptaráð eða öðrum samtökum fyrirtækja- og fjármagnseigenda eða fyrirtækjum beint, svo sem greiningardeildum banka) mynduð þið fá taugaáfall, átta ykkur á að ið lifið í raun inn í lygavef auðvaldsins. Meginstoðir almennrar umræðu á Íslandi er mykjuhaugur, dý, mýri. Og það er blindþoka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: