„Mér finnst það erfitt. Mér finnst vont að horfa upp á það.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
„Ég hef yfirleitt frá því að ég var kosin á þing verið stolt af því að vera alþingismaður. Ég er stolt af því trausti sem mér hefur verið sýnt af kjósendum og hef bara verið stolt af störfum mínum og störfum míns flokks og náttúrlega fleiri í þinginu,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir Flokki fólksins, í sinni fyrstu ræðu eftir að hún snéri aftur til þingstarfa.
„Það er bara því miður þannig að við stjórnmálamenn njótum oft ekki trausts í samfélaginu. Það er mjög miður vegna þess að við erum að sinna mjög mikilvægum störfum og það skiptir máli að okkur sé treyst. En það sem fólk horfir á er framganga okkar og náttúrlega líka sá afrakstur sem við komum með. Ég verð bara að segja það að — ég dró mig út frá þingstörfum núna í nokkrar vikur eins og allir vita og fylgdist ekki mikið með.
En ég kveikti einn þriðjudag og horfði á þingfund og mér ofbauð, mér bara ofbauð. Það fóru held ég tveir tímar í fundarstjórn u.þ.b., með einhverju einu eða tveimur hléum, alla vega tveir tímar og svo sex tímar, ef ég man rétt, í umræðu um fríverslunarsamning við Taíland. Við erum búin að horfa upp á endurtekningu á þessu núna ítrekað hérna í þinginu og ég velti fyrir mér — ég veit það að minni hlutar hafa alveg beitt því sem oft er kallað málþóf.“
Síðan sagði Ásthildur:
„En fyrir hvað erum við að gera það? Erum við að gera það bara til þess að tefja eða erum við að gera það af því að það eru einhver sérstök mál sem liggja okkur virkilega á hjarta? Ég held að við séum ekki að afla Alþingi neinnar virðingar með því hvernig þingið er að virka þessa dagana og mér finnst það mjög leiðinlegt. Mér finnst það erfitt. Mér finnst vont að horfa upp á það.“