- Advertisement -

Hótelstjóri lagði hendur á starfsmann Eflingar

Fréttir úr verkfallinu: Til átaka kom við Hótel Nordica.

Starfsfólk Eflingar hefur í samskiptum sínum við Hótel Nordica ítrekað orðið fyrir aðkasti hótelstjórans, Ingólfs Haraldssonar. Hann hefur svarað eðlilegum beiðnum með skætingi og lagði í dag hendur á starfsmann stéttarfélagsins.

Í morgun lagði ein af sex kröfugöngum hótelstarfsmanna af stað frá hótelinu, sem er hluti hinnar alþjóðlegu Hilton keðju. Ingólfur tók við hópnum og sagði honum að hypja sig umsvifalaust af lóð hótelsins. Rútustæðið yrði að vera laust fyrir rútuferðir, tilkynnti hann fulltrúum stéttarfélagsins, og sagði að það „kemur þér ekkert við“ þegar bent var á að boðað hefði verið til verkfalls meðal rútubílstjóra líka.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann tekur þennan tón við okkur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Á fyrsta degi kosninga fyrir þernuverkfallið boðuðum við komu okkar á hótelið og fengum vilyrði fyrir því. Þegar við komum segir hann okkur svo að koma eftir vakt. Við komum þá uppúr fjögur, nákvæmlega eins og hann bað okkur, að starfsmannaútganginum. Við vorum mjög slakar að bíða, en hann ráfaði þar í kring. Hann var með leiðindi við starfsfólkið sitt, sem ætlaði að kjósa, og við okkur. Hann var mjög ósamvinnuþýður. Við urðum vitni að því að hann væri að niðurlægja starfsfólkið sitt.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hann sagði við einn starfsmanninn, sem sat þarna og reykti, að hann væri latur,“ segir Valgerður Árnadóttir af félagssviði Eflingar. „En sá náungi tók þessum móðgandi tón eins og hann væri vanur þessu, sat bara og reykti.“

„Okkur fannst það bara frekar töff hjá þessum starfsmanni,“ segir Sólveig Anna. „En þegar kosningin var hafin, og starfsfólkið, mest konur af erlendum uppruna, var að fara að kjósa, þá kom Ingólfur aðvífandi, dró upp símann og gerði sig líklegan til að taka myndir af starfsfólkinu þar sem þær voru að fylla út kjörseðlana. Þá stillti ég mér upp fyrir framan símann hans svo hann gæti ekki tekið mynd, og ég gerði honum það ljóst að hann mætti ekki taka mynd af fólki sem væri í miðjum klíðum að greiða atkvæði. Þá lét hann af þessu, en hélt áfram að hreyta í okkur einhverjum leiðindum og þvælu.“

Í hádeginu í dag lagði önnur kröfuganga af stað frá Hilton. Skrifstofustjóri Eflingar, Berglind Rós Gunnarsdóttir, skutlaði skiltum fyrir gönguna að hótelinu. „Ingólfur kemur mjög æstur til okkar,“ segir Berglind, „og skipar okkur að fara út af lóðinni. Ég sagði honum að við værum að stoppa örstutt til að rétta fólki skilti. Þegar ég opna skottið til að leyfa fólki að gera það, þá skellir hann hurðinni aftur. Og hann gerir það nokkrum sinnum. Ég sagði honum að ég gerði mér alveg grein fyrir því að hann væri ekki sáttur við réttindabaráttu starfsfólksins, en þetta tæki enga stund. Við vorum ekki fyrir neinum og vorum ekki að teppa neitt. Þegar hann lét ekki af þessu bauð ég honum að hringja bara í lögregluna.“

Valgerður, sem hafði umsjón með kröfugöngunni, segir hann hafa farið í stutta stund. „Ég vonaði satt að segja að hann væri að hringja í lögregluna, svo við hefðum vitni að þessari hegðun.“

Svo var gengið af stað. „Þá kemur hann eina ferðina enn,“ segir Valgerður, „og segir að hann hafi verið búinn að segja okkur að fara. Ég tilkynnti honum að við værum nú á leiðinni burt, en ef til vill ættum við að hafa kröfugönguna í smá stund hjá Hilton vegna þessarar framkomu. Þá ýtir hann við mér.“

Berglind segist forviða á framferði Ingólfs. „Þetta fær mann til að hugsa. Ef þetta er framkoma hans við starfsfólk stéttarfélagsins, hvernig er þá framkoma hans við eigið starfsfólk?“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir hegðun sem þessa ekki verða liðna. „Við lítum það mjög alvarlegum augum ef hendur eru lagðar á starfsfólk félagsins. Við munum taka þetta fyrir og athuga hvort senda eigi tilkynningu um framferði Ingólfs til Hilton samsteypunnar.“

Frétt af efling.is.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: