- Advertisement -

Hræðsluáróður um óverðtryggð lán

Með verðtryggingunni fáum við lánað fyrir verðbólgunni í smá tíma en svo kemur að skuldadögum og þá borgum við hana dýrum dómum með vöxtum og vaxtavöxtum.

„Nýlega hafa bæði varaseðlabankastjóri og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun talið ástæðu til að vara við því að breytilegir vextir óverðtryggðra lána geti hækkað. Rétt eins og það sé ekki augljóst hvað orðið „breytilegir“ þýðir eða neytendur geri sér ekki grein fyrir því að slíkar breytingar geti orðið bæði til hækkunar og lækkunar,“ segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Þessar áhyggjur opinberra aðila eru athyglisverðar því aldrei hefur opinber stofnun varað neytendur við því að verðtryggð lán og afborganir þeirra hækki alltaf í takt við verðbólgu hvort sem hún er lítil eða mikil og aldrei nokkurn tímann hefur opinber stofnun varað við því að snörp hækkun verðbólgu geti svipt lántakendur verðtryggðra lána öllu eigin fé í húsnæði sínu með óafturkræfum hætti, líkt og gerðist í bankahruninu.

Það er einnig athyglisvert að þrátt fyrir þessar áhyggjur af neytendum hafa sömu opinberu aðilar látið það algjörlega átölulaust að lækkun stýrivaxta skili sér ekki að fullu til lántakenda. Þeir hafa t.d. á undanförnum mánuðum ekkert skipt sér af því að vextir íbúðalána hjá bönkunum hafi lækkað um aðeins 42% þó að stýrivextir Seðlabanka Íslands hafi lækkað um 78%. Hér er um að ræða vaxtamun og upphæðir sem íslensk heimili munar verulega um bæði til lengri og skemmri tíma.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við þurfum að varast að falla ekki aftur í þá gildru!

Það er full ástæða til að benda þessum aðilum á að neytendur eiga þessa miklu vaxtalækkun inni hjá bönkunum og ef hún myndi skila sér að fullu, ættu óverðtryggðir vextir íbúðalána að vera 1,33% og allar áhyggjur því ástæðulausar.

Hvað varðar verðtryggð lán þá er verðbólga nú 3,2%, þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera komnir niður í um 0,3%, en eru þrátt fyrir það 2,0% eða hærri hjá bönkunum.

Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að vaxtalækkanir undanfarinna missera skili sér til neytenda áður en hugsanlegar stýrivaxtahækkanir fara að hafa einhver áhrif á lán neytenda.

Það að opinberir aðilar hafi ekki lýst áhyggjum sínum yfir því að lækkun vaxta sé ekki að skila sér til neytenda dregur því miður mjög úr trúverðugleika þess að hagsmunir neytenda séu þeim efst í huga þegar yfirlýsingagleði undanfarinna daga er skoðuð.

Neytendur, heimilin í landinu, mega aldrei gleyma því að verðtryggingin hefur í áratugi verið helsta mjólkurkýr fjármálakerfisins á Íslandi. Hún étur ekki aðeins af launaútborgun okkar um hver mánaðamót, heldur étur hún líka eignarhluta okkar í heimilunum sem við leggjum svo mikið á okkur til að eignast.

Hækki vextir og afborganir er verðtryggingin í besta falli skammgóður vermir, svipað og að pissa í skóinn sinn. Með henni fáum við lánað fyrir verðbólgunni í smá tíma en svo kemur að skuldadögum og þá borgum við hana dýrum dómum með vöxtum og vaxtavöxtum.

Yfirlýsingar opinberra aðila og fjármálastofnana á undanförnum dögum og vikum vegna hugsanlegra vaxtahækkana stafa ekki af umhyggju þeirra fyrir neytendum heldur af því að þeir vilja ekki missa spón úr aski sínum og að afurðir mjólkurkýrinnar rýrni.

Í því samhengi er rétt að minna á þær þúsundir fjölskyldna sem misstu heimili sín vegna verðtryggðra lána sem stökkbreyttust í hruninu þannig að greiðslubyrði þeirra varð ekki aðeins óviðráðanleg heldur átu þau líka upp allar eignir fólks. Við þurfum að varast að falla ekki aftur í þá gildru!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: