„Jú, það dugar ekki að vísa í mælaborð í vinnslu einhvers staðar uppi í sveit eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins.“
Stefán Vagn Stefánsson.
Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokki: „Ég vil aftur byrja á því að þakka hæstvirtum ráðherra fyrir góða yfirferð á fjármálaáætluninni sem hér er til umræðu en verð þó að segja að það vekur athygli í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026–2030 að sérstaklega sé tekið fram að staða ríkisfjármála sé enn traust, jafnvel eftir heimsfaraldur og náttúruhamfarir. Í áætluninni segir nánar tiltekið, með leyfi forseta:
„Staða ríkisfjármála er enn traust eftir veigamiklar áskoranir heimsfaraldurs og náttúruhamfara en ýmsir aðrir þættir, s.s. viðhald og uppbygging innviða og öldrun þjóðarinnar, munu fyrirsjáanlega halda áfram að valda þrýstingi á ríkisfjármálin.“
Stefán Vagn sagði svo:
…eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins.
„Þetta er sem sagt mat ríkisstjórnar á árangri síðustu ára en er þetta ekki sama ríkisstjórnin og sagði við almenning þegar hún tók við að hún tæki við mun verri stöðu ríkissjóðs en áætlanirnar höfðu gert ráð fyrir? Það eru aðeins 100 dagar síðan það var fullyrt. Hér sjáum við ákveðna mótsögn sem vekur upp spurningu um trúverðugleika og samræmi í málflutningi. Þessi sterka staða ríkisfjármála er fyrst og fremst árangur ábyrgðarákvarðana síðustu ára þrátt fyrir mikil áföll á borð við Covid og eldgos á Reykjanesskaga. Alþingi verður hins vegar að geta fjallað um skýr markmið, mælikvarða og raunverulega stefnu ríkisstjórnarinnar á öllum málefnasviðum til næstu fimm ára en sú mynd birtist ekki í fjármálaáætluninni, engan veginn, og það er alvarlegt. Einhverra hluta vegna hefur fjármála- og efnahagsráðherra gleymt að setja fram markmið og mælikvarða í umfjöllun um áherslur og málefnasvið.“
Stefán Vagn sagði síðan: „Á bls. 113 í fjármálaáætluninni kemur reyndar fram að í mótun sé mælaborð með upplýsingum um markmið og mælikvarða málefnasviðanna. Augnablik. Fjármálaáætlun er þingsályktunartillaga og að baki henni eru lög um opinber fjármál. Þar er því lýst eftir markmiðum og mælikvörðum fyrir einstök málefnasvið og hver eru þau, virðulegur forseti? Jú, það dugar ekki að vísa í mælaborð í vinnslu einhvers staðar uppi í sveit eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins. Í greinargerð með frumvarpi til laga um opinber fjármál segir m.a. í 5. gr., sem fjallar um fjármálaáætlun: „Um er að ræða eitt af lykilatriðum fjármálaáætlunar.““