- Advertisement -

Hvað eiga laun að hækka mikið? Á aðeins að semja um málskrúð?

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Sá, sem stjórnar skattamálum á Íslandi í dag sagði eftirfarandi í gær, þegar hann var spurður hvort unnt væri að verða við ósk verkalýðshreyfingarinnar um lækkun eða afnám skatta á lægstu tekjum (tekjum láglaunafólks): „Við höfum í allan vetur verið smám saman að benda á atriði, sem við getum átt samstarf um og nú er KANNSKI komið að því að setja það í eitt skjal og staðfesta að þetta standi til að gera á einhverju ákveðnu tímabili. KANNSKI koma þarna einhver atriði eftir því hvernig þetta samstarf þróast.“

Þetta er mikill áhugi eða hitt þá heldur. Það á að safna saman einhverjum gömlum atriðum á eitt skjal. Og KANNSKI koma einhver ný atriði til greina. Hvers vegna er stjórnin ekki látin segja hreint út hvort hún vilji lækka skatta lágtekjufólks og hvað mikið? Eru verkalýðsleiðtogarnir hræddir við að tala við ráðherrana og geta þeir ekki talað mannamál við þá. Þarf að tala í hálfkveðnum vísum um að KANNSKI verði þetta og hitt gert

Forsætisráðherra var spurð í gær hvort skattalækkun yrði meiri en boðin var áður og hafnað. Hún svaraði því ekki. Ljóst er að skattalækkun verður ekki meiri. Málskrúðið verður hins vegar meira.

Það er verið að blekkja verkalýðsleiðtogana með málskrúði um ekki neitt. 
Talið er upp: Vaxtalækkanir, húsnæðismál, skattalækkanir. En innihaldið er ekkert. Sagt er, að skapa eigi grundvöll fyrir vaxtalækkunum. Hvað þýðir það? Það þýðir að samþykkja á hugmynd Gylfa Zoega um litlar kauphækkanir.

Verkafólk á m.ö.o. að afsala sér sanngjörnum launahækkunum til þess að skapa grundvöll vaxtalækkunar. Það skiptir engu máli hvað stendur um vaxtalækkanir í kjarasamningi. Seðlabankinn, peningastefnunefnd ræður vöxtunum. Ef menn halda að kjarasamningur geti ákveðið vextina þá er það sjálfsblekking.

Mér virðist að verkalýðsleiðtogarnir hafi farið á taugum eftir Wow áróðurinn. Og nú er verið að gera kjarasamning með litlum launahækkunum en alls konar málskrúði í staðinn, sem segir lítið sem ekki neitt. Það verður lítið gagn í plöggum stjórnarinnar um skattamál og húsnæðismál og enn minna að marka orðskrúð um vaxtalækkanir!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: