- Advertisement -

Hvaða menning er svo mikilvæg að hana eigi að vernda?

Marinó G. Njálsson:

Hann minnist ekki einu orði á útflæði Íslendinga sem flytja til annarra landa, en mjög svipaður fjöldi fólks fætt á Íslandi eða afkomendur þeirra fæddir í útlöndum, búa utan landssteinanna, og þeirra sem hið gagnstæða á við um.

Í góðri bók segir: „Það er engin ástæða til að gleðjast því þjáningarnar munu hellast yfir okkur í framtíðinni.“ Hér er hlutunum að sjálfsögðu snúið á haus, því það er nauðsynlegt að gleðjast meðan þjáningin hefur ekki yfirhöndina.

Í viðtali segir ágætur maður, að við verðum að passa okkur á innflæði útlendinga sem hingað sækja til að setjast að. Hann minnist ekki einu orði á útflæði Íslendinga sem flytja til annarra landa, en mjög svipaður fjöldi fólks fætt á Íslandi eða afkomendur þeirra fæddir í útlöndum, búa utan landssteinanna, og þeirra sem hið gagnstæða á við um.

Margir þjást vegna þess ótta að Ísland taki breytingum. Að íslensk menning hverfi eða verði óþekkjanleg. Við þá vil ég segja, að íslensk menning er að miklum hluta óþekkjanleg frá því sem hún var fyrir 50-100-150 árum. Menningararfurinn er hins vegar enn til staðar, en menningin sem afar mínir og ömmur ólust upp við er ekki til lengur. Hún er, eins og árin, horfin í aldanna rás.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nýlegt strandhögg í menningu okkar er gervigreind.

Það er engin ástæða til að þjást vegna ótta við breytingar, heldur eigum við að gleðjast yfir þeim og taka opnum örmum. Er einhver hér sem vill bara hafa val um Holtið, Borgina, Grillið og Naustið? Þjóðvegasjoppur þar sem nánast ekkert var til og milli þeirri lágu malarvegir. Eða að þurfa að fara í kvikmyndahús til að sjá fréttamyndir hvort heldur íslenskar eða útlenskar, hafa bara Gufuna til að hlusta á og vera fastur á skerinu vegna þess að eina leiðin úr landi var rándýr flugfargjöld eða Gullfoss.

Allt þetta og margt annað var sú menning sem foreldrar mínir ólust upp við. Margir af kynslóð afa minna og amma fæddust í húsum með moldargólfi og torfþaki. Er það hin eftirsótta menning sem við þurfum að vernda fyrir vondum útlendingum?

Menning er ekki eitthvað sem er bara fasti, sem betur fer, heldur tekur breytingum á hverju ári. Nýlegt strandhögg í menningu okkar er gervigreind. Annað er að ísfirskt sprotafyrirtæki gerir marga á Vestfjörðum vellríka. Ef menning tæki engum breytingum, þá væri sjónvarpsstöðin Sýn ekki til, vegna þess að hvort heldur gangsetning Sjónvarpsins ári 1966 og tilkoma Stöðvar 2 árið 1986 voru augljós atlaga að menningu þess tíma.

Nú og varðandi þetta með enskuskotna íslensku, þá hefur tilkoma Stöðvar 2 og allra rása Sýnar haft mun meiri áhrif á það, en að hingað hafi flutt fólk sem fætt er í öðru landi. Þar á undan var það Kaninn og Kanasjónvarpið. Mínir bekkjarfélagar upp úr 1972 slógu um sig með ensku, því þeir horfðu á Kanasjónvarpið og hlustuðu á Kanann. (Fyrir þá sem ekki eru nógu gamlir, þá var Kaninn útvarpsstöð bandarískahersins á Miðnesheiði og Kanasjónvarpið sjónvarpsstöðin þeirra, sem lengi var hægt að sjá á höfuðborgarsvæðinu og enn lengur á Suðurnesjum.)

Hættum að þjást yfir hugsanlegum breytingum…

Svo er spurningin hvaða menning er svo mikilvæg að hana eigi að vernda og hve gömul sú menning er. Það finnst nefnilega sumum, sem það sem hefur verið til staðar í 6 mánuði, hafi verið til um alla eilífð. Staðreyndin er hins vegar að „íslensk menning“ sem til er í dag, hefur að mestu bara verið til í frekar stuttan tíma.

Hættum að þjást yfir hugsanlegum breytingum og gleðjumst yfir því sem lífið hefur upp á að bjóða. Vissulega eru margir að ganga í gegn um raunverulegar þjáningar og þeir þurfa stuðning okkar. Það er hins vegar frekar nýtt í íslenskri menningu, að boðið sé upp á alls konar stuðning við fólk sem þarf á því að halda. Í eldri menningu, þurfti fólk bara að éta það sem úti fraus.

Viðbót 14/7:

Því miður hafa nokkrir skrifaði athugasemdir sem fjalla um útlendingahatur, en ekki efni færslunnar sem er að við erum stöðugt að breyta menningu þjóðarinnar og erum sjálf ábyrg fyrir að taka upp enskuslettur í talmál og höfum ekki þurft innflytjendur til þess. Ég eyði ahugasemdum tengdum útlendingahatri. Þið sem viljið ræða þau mál getið gert það á ykkar eiginn veggjum.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni. Greinin er birt hér með gólfuslegu leyfi höfundar. Miðjan valdi fyrirsögnina.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: