„Hér er verkefni sem mig langar til að heyra hvað hæstvirtur fjármálaráðherra og ríkisstjórnin ætlar að gera við.“
Sigurður Ingi Jóhansson.
Alþingi „Við í Framsókn höfum leitast eftir öll þessi ár að draga úr vægi verðtryggingarinnar með það að markmiði að hún hverfi úr íslensku samfélagi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar á Alþingi, fyrr í dag.
Hann hélt áfram: „Ég mælti fyrir einni leið til þess fyrir tveimur dögum með þingsályktunartillögu sem var áskorun til ríkisstjórnarinnar og hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra um að taka til skoðunar skýrslu sem ég lét vinna og var fyrsta skrefið í því að finna út úr því hvernig við hér á Íslandi, eins og í öllum öðrum löndum í kringum okkur, getum tekið óverðtryggð löng lán með föstum vöxtum og þannig tekið gríðarlega stór skref til að draga úr vægi verðtryggingar. Ég lagði þetta mál líka fram í fyrra,“ sagði Sigurður Ingi.
Og svo þetta: „Það var lítið um svör frá fjármálaráðherranum. Staðreyndin er hins vegar sú að einn flokkur í ríkisstjórninni lagði fram slíkar hugmyndir í sinni kosningabaráttu, um að skoða fyrirkomulagið í Danmörku. Ég veit að verkalýðsforkólfar í Samfylkingunni og þeir sem eru úti í samfélaginu í dag hafa kallað eftir því. Tökum á verðtryggingunni. Hér er verkefni sem mig langar til að heyra hvað hæstvirtur fjármálaráðherra og ríkisstjórnin ætlar að gera við. Þetta mál fór alla vega í gegnum fyrri umræðu hér fyrir tveim dögum.“
Ólafslög eru kennd við Ólaf heitinn Jóhannesson þá formann Framsóknar.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra svaraði:
„Varðandi verðtrygginguna. Ég ætla ekki að fara í þann Morfísleik að rifja upp hver fann hana upp en hæstvirtur þingmaður veit auðvitað hvaðan hún er komin. Hún er hins vegar barn síns tíma og eins og ég nefndi áðan þá eru við hana gallar, svo sem eins og hvað hún gerir miðlunarferli peningastefnunnar erfitt.“
Með stuttri leit kom þetta upp: „Með ört vaxandi verðbólgu á áttunda áratugnum færðist verðtrygging húsnæðislána smám saman aftur í vöxt og endaði þetta ferli sem kunnugt er með upptöku fullrar verðtryggingar eftir setningu svonefndra Ólafslaga 1979.“
Ólafslög eru kennd við Ólaf heitinn Jóhannesson þá formann Framsóknar.
„Varðandi síðan endurskoðun eða innleiðingu á annars konar fyrirkomulagi þá hef ég ákveðnar efasemdir, sem ég hef tjáð háttvirtum þingmanni, um þær hugmyndir sem eru í þessari téðu skýrslu. Þær áhyggjur mínar snúa að óvissunni um vaxtaþróun, hvar hún lendir. Hugmyndin er að sú óvissa lendi á ríkissjóði. Ég vil í þessu samhengi benda á afleiðingar lánveitinga Íbúðalánasjóðs þar sem sambærileg áhætta féll á ríkið, nema þá var bara verið að tala um verðtryggð lán. Þá endaði það bara alls ekki vel. Ég er sammála háttvirtum þingmanni um að við þurfum að skoða það hvort við getum lært eitthvað af nágrannalöndunum. Það að ríkið taki vaxtaáhættuna á sig er eldur sem við erum búin að brenna okkur á og ég legg ekki til að við endurtökum þann leik.“
Enn var það Framsókn. Framsókn fékk í gegn 90 prósenta lán Íbúðalánasjóðs sem endaði mjög illa, eins og lesendur muna eflaust eftir.