- Advertisement -

Hvar eru kosningaloforðin?

Þingmaðurinn hvetur stjórnarflokkana til þess að gera betur, sérstaklega þá sem lofuðu nú öllu fögru.  Það verður áhugavert að sjá hvað þingið, sem fer með fjárveitingavaldið, gerir við þessa fjármálaáætlun, segir þingmaðurinn.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur gluggað í fjármálaáætlunina, sem hann segir lítið breytta frá áætlun síðustu ríkisstjórnarinnar.

Björn Leví skrifar: „Til að byrja með þá eru nokkurn vegin nákvæmlega sömu markmið og aðgerðir sett fram í stefnu stjórnvalda og í síðustu fjármálaáætlun. Að auki er búið að taka burt kostnaðardálkinn á aðgerðunum, þannig að þó hann hafi yfirleitt verið tómur eða illa áætlaður síðast þá vantar hann alveg núna. Við stöndum því enn verr að vígi í því að rýna þessa fjármálaáætlun en síðast.

Stóru stefnubreytingarnar virðast vera að það sé verið að setja minna í húsnæðismál, að það á að lækka skattprósentu sem kemur ríku best (fá fleiri krónur) og enn og aftur er unga fólkið skilið eftir útundan. Það á ekki að ná meðaltali OECD í menntamálum, hvað þá meðaltali norðurlandanna … það á „að nálgast meðaltalið“.

Aukningin sem sést í heilbrigðismálum, málefnum aldraðra og öryrkja er vegna fólksfjölgunnar í þeim hópum ásamt því að það er verið að reyna að áætla nákvæmar hver raunverulegur kostnaður verður í þessum málaflokkum í stað þess að það þurfi að fara í fjárauka á árinu.

Ég spyr bara, hvar eru kosningaloforðin? Innviðauppbygging? 16,5 milljarðar á 3 árum. Það er andvirði einna jarðgangna sem á að gera umfram það sem venjulega er gert.

Ég hvet stjórnarflokkana til þess að gera betur, sérstaklega þá sem lofuðu nú öllu fögru. Það er ekki að sjá að þetta stjórnarsamstarf skili neinum flokki neinu kosningaloforði nema auðvitað þeim sem stendur aldrei við kosningaloforð hvort eð er … eða gerir það bara „tæknilega“ með einhverjum excel æfingum.

Þetta á að vera fjármálaáætlun ríkisstjórnar VG, hún lítur svo sannarlega ekki þannig út. Hún er nokkurn veginn nákvæmlega eins og síðasta fjármálaáætlun, sem var þá fjármálaáætlun sjalla sem virðist takast einhvern veginn, þrátt fyrir að hafa ekki haft fjármálaráðuneytið á síðasta kjörtímabili, að taka fjármálaáætlunina, sem VG gagnrýndi svo mikið, með sér frá því kjörtímabili og ætla að reyna að ná henni aftur í gegn.

Það verður áhugavert að sjá hvað þingið, sem fer með fjárveitingavaldið, gerir við þessa fjármálaáætlun. Verður aftur sagt „við verðum að varðveita ríkisstjórnarsamstarfið“? Skiptir svona miklu máli að Katrín sé með forsætisráðherrastólinn í ríkisstjórn með sjöllum að það er ekki hægt að uppfylla kosningaloforð? Það lítur allavega þannig út miðað við það sem ég hef getað lesið í þessari áætlun, samanborið við síðustu.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: