- Advertisement -

Hvar eru miðaldra konur og eldri?


Ef þingið væri Bond-mynd væri maður eins og Jón Gunnarsson James Bond en konur eins og Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir Bond-stúlkurnar, svona aldurslega séð.

Gunnar Smári skrifar:

Það eru 19 þingmenn eldri en ég. Ég sá þetta þegar ég var að skoða aldurssamsetningu þingmanna. Af þessum 19 eru 16 karlar og 3 konur. Konur eru of fáar á þingi, ef hugmyndin er að þingið endurspegli þjóðina, og þá sérstaklega miðaldra og eldri konur.

Það eru þrír þingmenn yngri en sonur minn og það eru allt konur. Það segir líka einhverja sögu. Þingkonur eru yngri en þingkarlar, það munar um fimm árum á meðalaldri kynjanna á þingi. Þetta er svipað og aldur brúðhjóna á síðustu öld. Þá var brúðguminn oftast nokkrum árum eldri en brúðurin. Eða eins og Hollywood-mynd þar sem karlhetjan er oft um og yfir sextugt á meðan kvenhetjan um fertugt. Fjölmennasti karlahópurinn á þingi er 60-64 ára. Fjölmennasti aldurshópur kvenna er annars vegar 50-54 ára og hins vegar 40-44 ára. Hér er miðað við aldur þingheims kosningaárið 2017. Ef þingið væri Bond-mynd væri maður eins og Jón Gunnarsson James Bond en konur eins og Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir Bond-stúlkurnar, svona aldurslega séð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef við skiptum þingheimi upp eftir kynjum og aldri og berum saman við þjóðina þá er of mikið af körlum á þingi en aðeins af körlum eldri en 35 ára og yngri en 65 ára. Það vantar yngri og eldri karla. Konur eru færri á þingi en karlar, til að ná jafnvægi milli kynjanna þyrfti að skipta út átta körlum fyrir átta konur. Eftir sem áður er of mikið af konum á aldrinum 40 til 54 ára. Það vantar yngri og eldri konur á þing, ekki fleiri konur milli 40 til 54 ára.

Ef þingheimur ætti að endurspegla aldur kjósenda þyrfti að losna við 28 þingmenn á aldrinum 35 til 64 ára en bæta við 16 þingmönnum yngri en 35 ára og 12 eldri en 65 ára.

En kannski finnst einhverjum það öfgakennt að þingheimur endurspegli aldur kjósenda upp á gramm, að hlutfallslega jafn margir þingmenn séu yfir áttrætt eða undir 25 ára eins og fólk á miðjum aldri. Ég lamdi því niður fólk yfir 80 ára og undir 25 ára um ¾ og fólk á aldrinum 25-29 ára og 75-79 ára um ½ þá eru tuttugu of margir þingmenn á aldrinum 35-64 ára en ellefu of fáir eldri en 65 ára og níu of fáir yngri en 35 ára.

En þar sem kynjaskekkja er mikil á þingi þá segir þetta ekki alla söguna. Við þyrftum að losa okkur við fleiri karla: þrjá á aldrinum 35-44 ára, fjóra til fimm á aldrinum 45-54 ára og níu til tíu á aldrinum 55-64 ára. Í staðinn kæmu þrír karlar undir þrítugt, þrír 30-34 ára, þrír til fjórir 65-74 ára og einn eldri en 75 ára.

Við þyrftum líka að losna við konur; þrjár á aldrinum 40-44 ára og aðrar þrjár til fjórar á aldrinum 50-54 ára. En okkur vantar hins vegar tvær konur undir þrítugu og tvær á aldrinum 30-39 ára, þrjár á aldrinum 55-64 ára, fjórar til fimm á aldrinum 65-74 og eina yfir 75 ára.

Þegar við skoðum útlendingaandúð er oft gott að hafa í huga aðra fordóma, til dæmis gagnvart kynjum, aldri, stéttum og ekki síst fordómum gagnvart fátækt og valdaleysi. Fátækur ungur ómenntaður erlendur karl sem leitar hælis hér mætir annarri afstöðu kerfis og íbúa en menntuð miðaldra útlend kona sem giftist til landsins. Ég er ekki að bera þessa tvo skilgreindu hópa saman sérstaklega, aðeins að hvetja ykkur til að skoða hvernig stétt, efnahagsleg staða, menntun, aldur og annað hefur áhrif á afstöðu samfélagsins. Og þegar kemur að frambjóðendum flokkanna og kosningum er ekki endilega slæmt að vera kona á aldri sem kalla má yngri miðaldra. En það virðist vera afleitt að vera miðaldra eða eldri kona. Konur á aldrinum 40-54 ára eru ekki hlutfallslega færri á þingi en karlar á þessum aldri. En þegar aldursfordómar leggjast ofan á kynjafordómana þá hverfa konur nánast úr þingliðinu, konur yfir sextugt, jafnvel strax um 55 ára aldurinn.


Þegar aldurssamsetning þingheims er skoðuð er augljóst að það er aðeins tímaspursmál þar til boðinn verður fram listi 65+ ára, listi eftirlaunafólks.

Sem er fáránlegt. Það er vitað að konur um og eftir fimmtugt er sá hópur sem helst heldur uppi menningar- og félagslífi í samfélaginu og eru líklega sá samfélagshópur sem er hefur mesta samfélagslega greind (ef það hugtak er til).

Þegar aldurssamsetning þingheims er skoðuð er augljóst að það er aðeins tímaspursmál þar til boðinn verður fram listi 65+ ára, listi eftirlaunafólks. Með réttu ættu að vera ellefu þingmenn á þessum aldri, jafnvel fleiri, en það er aðeins einn þingmaður á þessum aldri í dag. Það hefur freklega verið gengið á hagsmuni eftirlaunafólks á undanförnum árum, eins og á hagsmuni ungs fólks; en þetta eru tveir hópar sem eru með áberandi of fáa fulltrúa á þingi.

Sem fyrr segir er hér aðeins horft til aldurs og kyns. Ef við bættum við stéttum, efnahagslegri stöðu og reynslu af fátækt og basli kæmi náttúrlega enn betur í ljós hversu illa þingheimur endurspeglar landsmenn. Og það sést á umræðu á þingi, sem oft er klofin frá samfélaginu varðandi umræðuefni, sjónarhorn og áherslur. Og það er þessi klofningur frá þjóðinni, hversu illa þingheimur endurspeglar heiminn utan veggja þingsins, sem veldur því að fólk ber lítið traust til þingsins. Til hvers ætti eftirlaunafólk að treysta Alþingi? Öryrkjar, leigjendur eða láglaunafólk?


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: