- Advertisement -

Hvar glataði Mál & menning rauða litnum?

Var starfið sem lagt var í þessi félög bara grín? Einhver mislestur sögunnar?

Gunnar Smári skrifar:

Saga Máls og menningar er um samfélag sem sótti vald yfir eigin samfélagi og vildi nota það til byggja menningu sem hentaði því, síðan um samfélag sem missti trúnna á að það væri fólksins að byggja sér framtíð í samvinnu heldur væri framtíðin eitthvað sem yrði til ef fólk héldi af sér höndum og léti fyrirtæki á markaði galdra hana fram og loks um samfélag sem var svo sannfært um að hið stóra væri ætíð satt að það seldi það sem fyrri kynslóðir höfðu byggt upp inn í sænska kauphallarmyllu í von um að hún kæmi með framtíðina; sem samfélagið vissi ekki lengur hver átti að vera, fyrir hvern eða til hvers; við verðum að taka þátt í framþróuninni, sögðu sauðirnir sem áður voru í forystu.

Ég hlustaði á tæplega þrjátíu ára ræðu Bill Clinton. Þar var hann að mæra eigin störf, helst að hafa nútímavætt fjármálakerfið. Séð frá okkar tíma er þetta sturlun, hann var að tala um aðgerðir til að sleppa böndunum af fjármálavæddum kapítalisma sem síðan hefur brotið og brennt samfélög víða um lönd, mulið undir sig atvinnulíf og efnahagslíf, stjórnmál og allar þær varnir sem alþýða fólks hafði byggt upp á liðinni öld til að verjast einmitt þessu skrímsli. Í ræðunni var Clinton í raun að segja það væri ekki okkar að óska okkur framtíðar eða berjast fyrir henni, heldur kæmi framtíðin ekki nema við hættum að berjast, hættum að hugsa, hættum að óttast og slepptum dýrinu lausu; það eitt hefði afl til að færa okkur framtíð. Þú getur ekki búið þér til framtíð í samvinnu við annað fólk, þú ert fyrir framtíðinni, farðu. Þetta er skilaboð Clinton og allra annarra nýfrjálshyggjugeggjara allra flokka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það ætti einhver að skrifa sögu Máls og menningar. Hvernig fólk fékk trú á eigið afl, vald og samfélagslegan sköpunarkraft og hvernig það tapaði trúnni, varð sannfært um að því bæri að vera til eilífðar aðgerðarlaus tannhjól í vél sem drifin væri áfram af arðsemiskröfu kauphallanna. Það mætti spyrja í lok sögunnar hvað hafi orðið um bæjarútgerðirnar, kaupfélögin, alþýðuhúsin, alþýðublaðið, alþýðubankann, fræðslusamband alþýðunnar, Menningarsjóð og annað sem almenningur byggði upp á síðustu öld til að geta lifað og starfað án þess að þurfa að strita innan í vél auðvaldsins alla daga, hlustandi á áróður auðvaldsins, ætíð undir hæl þess.

Var starfið sem lagt var í þessi félög bara grín? Einhver mislestur sögunnar? Blinda fyrir því að alþýðan getur aldrei búið sé framtíð heldur þiggur hún þá framtíð sem auðvaldið vill þröngva fram?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: