- Advertisement -

Sem sagt, algjör steypa

Þetta er svo aumkunarverður samanburður, að hálfa væri nóg.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Í minnisblaði Reykjavíkurborgar um ábatagreiningu vegna ferðaþjónustu er komist að þeirri niðurstöðu, að Reykjavíkurborg beri mikinn kostnað af ferðaþjónustunni vegna þess að laun í greininni eru undir meðaltali. Þetta er vissulega ekki orðað svona hreint út, en þetta er samt niðurstaðan.

En tökum helstu rök höfunda minnisblaðsins sem eru tekin saman í frétt RÚV:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Innifalið í þeim mismuni gæti verið fleiri stöðugildi.

„Beinn kostnaður borgarsjóðs af ferðamönnum var 2018 um 2,3 milljarðar króna. Þar vegur þyngst hlutdeild ferðamanna í útgjöldum safna og sundlauga. Þegar kemur að óbeinum kostnaði vega útgjöld vegna lögskyldrar þjónustu við starfsmenn í ferðaþjónustu þyngst eða um 15 milljörðum króna.“

Við þetta er tvennt að athuga:

1. Hlutdeild ferðamanna í útgjöldum safna og sundlauga er gjörsamlega óskiljanleg tala. Ef menn ætla að reikna hana út, þá verður fyrst að reikna út hver kostnaðurinn var án ferðamannanna og síðan að reikna út hver hann er með ferðamönnunum. Kostnaðaraukinn vegna ferðamannanna er því mismunurinn á þessum tveimur upphæðum. Innifalið í þeim mismuni gæti verið fleiri stöðugildi, meiri vatnsnotkun í sundlaugum, meiri rafmagnsnotkun og fleira í þeim dúr. Þetta er hins vegar ekki reiknað þannig út, heldur er hlutdeildin „áætluð út frá könnunum viðkomandi stofnana á fjölda og samsetningu gesta“. Sem sagt algjör steypa. Staðreyndin er, að betri nýting sundlauga og fjölgun heimsókna á söfn eru að afla Reykjavíkurborg aukinna tekna til að standa undir rekstri sundlauganna og safnanna. Borgin gæti alveg eins reiknað út hve mikið það kostar hana að íbúa í Kópavogi skyldi detta í hug að fara í sund í Laugardalslauginni. Samkvæmt sömu aðferðum tapar Reykjavíkurborg alveg heilan helling á því.

2. Í minnisblaðinu er síðan gert ráð fyrir að útsvarstekjur séu í samræmi við tölur frá RSK um hlutdeild starfsmanna í ferðaþjónustu í útsvarstekjum. Þegar kemur að útgjöldunum, þá nota höfundar minnisblaðsins hlutfall starfsmanna í ferðaþjónustu af heildarvinnuafli í landinu (ekki bara í Reykjavík) og reikna út „nettóútgjöld vegna lögskyldrar þjónustu við starfsmenn“. Mismunurinn á útsvarstekjunum og þessum kostnaði við lögskylda þjónustu við starfsmenn reiknast síðan út til að hafa verið um 6 ma.kr. árið 2018. Hafa skal í huga, að Reykjavíkurborg virðist ekki vera með upplýsingar um það hve margir starfsmenn ferðaþjónustunnar búa í Reykjavík, en í staðinn er notað landsmeðaltal. Ef færri starfsmenn í ferðaþjónustu byggju í Reykjavík, þá yrði þetta „tap“ Reykjavíkurborgar minna, en meira ef fleiri eru skráðir til heimilis í borginni! Það kostar Reykjavíkurborg sem sagt stórar upphæðir að fólk með lægra tekjur en meðallaun skuli búa í Reykjavík og starfa við ferðaþjónustu! Hvað ætli það kosti Reykjavík þá, að starfsmenn leikskóla búi í Reykjavík eða öryrki með þrjú börn á skólaaldri eða, eða, eða? Þetta er svo aumkunarverður samanburður, að hálfa væri nóg.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: