- Advertisement -

Aumkunarverð

…virðist hafa misboðið nokkrum fésbókarvinum mínum…

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Pistill sem ég ritaði hér í gærkvöldi eftir að hafa horft á kvöldfréttatíma útvarps og sjónvarps allra landsmanna og orðið verulega misboðið – virðist hafa misboðið nokkrum fésbókarvinum mínum – og fleirum, enda ratað víðar en ég átti von á eða stuðlaði að.

Gott mál, segi ég, hálfum sólarhring seinna. Mér finnst það ágætt að nokkrum skoðanabræðrum og systrum, hafi – tæpri hálfri öld eftir að ég gekk af trúnni við þann flokk sem ég gagnrýndi í gær – loks runnið það blóð til skyldunnar – að fordæma mig fyrir hreinskilnina. Eða náð að tjá sig um umfjöllunarefnið. Án ótta við útskúfun og einelti, eins og jafnan fylgir slíkum hugrenningum. Eða útilokun frá næsta Landsfundi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sýn okkar á samfélagið og heimsmyndina þess vegna er brothætt.

Common… Þetta er bara stjórnmálaflokkur. Það ætti ekki að vera heimsendir að lyfta upp litla fingri og segja; „Þetta er ekki alveg eins og ég sá þetta fyrir mér“. Og ekki þýða lokun á frekari bankafyrirgreiðslu, eins og því miður var reyndin fyrir áratugum síðan. Við erum öll mannleg. Okkur verður á. Sýn okkar á samfélagið og heimsmyndina þess vegna er brothætt. Hún byggir á takmarkaðri vitneskju sem breytist eftir því sem við eldumst og kynnumst fleiri viðhorfum. Þess vegna verðum við mýkri með árunum, við hlustum á fleiri sjónarhorn og við mátum kennisetningar stjórnmálanna við þann veruleika sem við upplifum frá degi til dags. Sumt passar betur en annað við okkar hugmyndir um framtak og frumkvæði, við viljum sjá réttláta umbun við breytni sem skapar verðmæti sem byggist kannski á hugkvæmni og forystu einstaklinga.

Annað talar blákalt til okkar sem tölur um kostnað við að framfleyta okkur eða fólk sem við þekkjum eða eigum vanda til. Fólk sem stritar allan liðlangan vinnudaginn – og oft miklu lengur – en á samt varla fyrir leigu húsnæðis og því sem nauðsynlegt telst til framfærslu; mat, nám fyrir börnin, og stundum eitthvað lítilræði til að skapa væntingar og von. Og gleði. Fullvissu um að erfiðasta hjallanum sé náð, og núna sé brattinn undan fæti.

Það er einmitt þarna sem ég klikkast gersamlega. Ég á akkúrat tvö ár eftir í eftirlaunaaldurinn. Ég þekki fullt af fólki sem hefur staðið í brekku stóran hluta ævi sinnar. Ekki náð að nýta fjölbreytta hæfileika sína til að gera úr því eitthvað sem gæti annað hvort skapað stolt og fullnægju yfir hlutverki sem væri hafið yfir einhæft verðmætamat skattaframtalsins sem ekkert skilur nema þá aumkunarverðu bræður; Debit og Kredit.

Hættum þessum bulli.

Við Íslendingar, yngsta þjóð Evrópu, deilum fast og og hart um uppruna okkar, sem við teljum okkur ýmist norska skattsvindlara og aflandskónga eða írska þræla og dusilmenni, en harðneitum öllum skyldleika við þessa vafasömu bræður. Kannski er það bara gott?

En margt af þessu ágæta fólki, hefur þótt sér sæma að greiða mun lægri skatta en alla í kringum sig, í formi fjármagnstekjuskatts, sem er meira en helmingi lægri en hæsti tekjuskattur. Hvaða bull er það? Í þeim tilfellum sem ég persónulega þekki, er minni fyrirhöfn lögð til, minni vinna, minni hugsun og minni hreyfing nokkurn tíma heldur en við öflun þeirra tekna sem leiða til tekjuskattsins. Hvers vegna? Er símtalið til endurskoðandans svona erfitt?

Hættum þessum bulli. Reynum öll að öðlast þann sameiginlega skilning í þeim flóknu – og vafalaust erfiðu verkefnum sem bíða okkar á næstu mánuðum – að við verðum öll að vinna saman. Hið kapítalíska hag- og efnahagskerfi sem er ráðandi í framkvæmd efnahags- og atvinnumála hér á landi sem annars staðar – er handónýtt og algerlega, algerlega ófært um að leiða okkur til einhvers árangurs.

Setjum allan ágreining um þessi stóru efnahags- og stjórnmálakerfi til hliðar. Algerlega á ís.

…með háværu gjallarhorni einnota þokulúðra.

Tökum okkur Björgunarsveitirnar til fyrirmyndar og hvernig þær hafa starfað í þeim krísum og uppákomum sem skekið hafa þjóðlífið síðustu mánuði. Finnum frumkraft þjóðarinnar í þeim einföldu og gefandi verkefnum að bjarga því sem bjargað verður. Og hugsum þá um fjölskyldur og einstaklinga. Raunveruleg verðmæti sem felast í heill og hamingju hvers einstaklings sem lagt getur að mörkum kraft sinn, reynslu og getu til að þoka samfélaginu nær því takmarki að komast af á vissulega verulega erfiðum tímum.

Gleymum að sama skapi lágsigldum stjórnmálamönnum sem líta á það sem skyldu sína að þjóna aumkunarverðum þröngum hagsmunum fyrirtækja og kennitölum sem fyrir löngu hafa tapað tiltrú almennings með eiginhagsmunum, sem hvorki geta talist innlegg í lýðheilsu eða almannaheill – með eða án iðnaðarsalts – en eru tilbúnir að útmála aumkunarverð sitt (án virðisaukaskatts) með háværu gjallarhorni einnota þokulúðra.

Greinina birti Halldór Árni á Facebooksíðu sinni. Miðjan birti fyrri greinina, sem hann vitnar til, í gærkvöld.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: