- Advertisement -

Hversu lengi á herferðin gegn okkur að viðgangst?

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Nokkur orð í kjölfar Kastljósins:

Ég tel að nú sé nóg komið af því að stöðugt sé grafið undan ákvörðunarrétti þeim sem verka og láglaunafólk sannarlega hefur á eigin lýðræðislegu vettvöngum. Það er nóg komið af því að lítið sé gert úr getu forystu í stærsta félagi verka og láglaunafólks, sem sannarlega hefur hlotið umboð félagsfólks í lýðræðislegum kosningum, til að stýra eigin félagi, til að móta sýn og stefnu, til að ákveða hvað best sé fyrir okkar félag sem við þekkjum manna best.

Sú vanstillta umræða sem við höfum nú orðið vitni að er til marks um þá skammarlegu jaðarsetningu sem tíðkast gagnvart verka og láglaunafólki, skoðunum þess, sjálfstæðum vilja. Þau sem telja sig betri, merkilegri og gáfaðri en verka og láglaunafólk, þau sem tilheyra stéttum sem ofar eru í stigveldi hins stéttskipta samfélags, virðast einfaldlega ófær um að skilja að við sem með vinnu okkar knýjum áfram hjól atvinnulífsins og höldum umönnunarkerfum samfélagsins uppi af einbeittum dugnaði erum ekki bara vinnuafl til að arðræna heldur fullorðnar mannskjur með getu og færni til að stýra verkalýðsfélaginu okkar. Að við höfum greind, reynslu og einbeittan vilja til að breyta félaginu okkar í það sem við teljum að það eigi að vera. Að við sem höfum sannarlega fengið umboð félagsfólks til að leiða Eflingu séum útmáluð sem ótýndir óþokkar og siðvillingar vegna löngunnar okkar til að gera það sem við teljum rétt er einfaldlega til skammar.

Baráttulistinn hlaut umboð félagsfólks Eflingar þrátt fyrir allt ógeðið sem dundi á í kosningabaráttunni. Hversvegna? Jú, vegna þess að raunverulegur árangur í stéttabaráttu og markviss umbótahugsun þegar kemur að starfsemi Eflingar er í heimi þeim sem þau byggja ekki sönnun á skítlegu eðli okkar heldur til marks um hollustu okkar við félagið, og viðurkenningu á efnahagslegum og félagslegum raunveruleika þeim sem félagsfólk býr við.

Ég spyr fyrir mína hönd, félaga minna og félagsins sem við höfum umboð eigendanna til að stjórna: Hvenær er komið nóg, hvenær fáum við vinnufrið? Hversu lengi á herferðin gegn okkur að viðgangst?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: