- Advertisement -

Hvítbókin er ekki heilagur sannleikur

Þannig svarar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, þegar hún, sem og aðrir þingflokksformenn, var spurð hvernig henni þykir ríkisstjórnin hafi tekist upp við að: „Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu,“ eins og segir í stjórnarsáttmálanum.

Er sjálfstæði þingsins, til dæmis gagnvart framkvæmdavaldinu, meira en áður hefur verið?

„Bæði þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd og aðrir alþingismenn, hafa með breytingu á lögum um opinber fjármál, mun meiri aðkomu að því er við kemur fjármálum ríkisins enda umfjöllun um þau margfalt meiri en áður. Fjárlaganefnd hefur aukið hlutverk þegar kemur að eftirliti með framkvæmdavaldinu sem nú ber að skila til þingsins skýrslum ráðherra til viðbótar við hefðbundna eftirfylgni fjárlaga. Við erum nú í fyrsta sinn að ganga í gegnum þetta nýja lagaumhverfi frá upphafi til enda með einni og sömu ríkisstjórn. Okkur miðar áfram og mikil samstaða er í fjárlaganefnd, hjá öllum flokkum, um að styrkja stöðu hennar gagnvart framkvæmdavaldinu enn frekar með auknu eftirliti og aðhaldi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

 Í stjórnarsáttmálanum segir á einum stað: „Auk þess vilja ríkisstjórnarflokkarnir ýta allnokkrum verkefnum úr vör með þverpólitískri nálgun og tryggja þar betur en venja er að sú fjölþætta þekking og reynsla sem þingið býr yfir nýtist í þágu lands og þjóðar óháð því hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga.“

Bjarkey segir: „Allir þeir hópar sem hér eru nefndir eru að störfum og ganga ágætlega. Þeir hópar sem sérstaklega er spurt um eru á misjöfnum stað, hófust á ólíkum tímum og verkefnin eru ákaflega ólík.“

Hún tekur dæmi: „Hópurinn um endurskoðun stjórnarskrár hefur haldið marga fundi og fundargerðir hans eru aðgengilegir á netinu ásamt því hvernig vinnulag þess hóps er háttað.

Nýsköpunarhópurinn hóf störf í lok september og skilar af sér 1. maí 2019. Hópurinn hefur fundað nokkrum sinnum með erlendum sérfræðingum á sviði nýsköpunar. Hópurinn er með breiðri aðkomu atvinnulífs, háskóla, sprotafyrirtækja og svo allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. 

Hópur um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæðihóf störf síðasta sumar og vinnan er á áætlun en stefnt er að hann skili af sér í lok júní 2019.“

„Sátt þarf að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar. Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.“ Þá er spurt, ert þú, þingflokksformaður, sátt/sáttur með niðurstöðu Hvítbókarinnar, sem einhverjir kalla hvítþvott frekar en hvítbók. Er það réttlátur dómur?

 „Niðurstaða hvítbókar um fjármálakerfið samanstendur af 45 tillögum og umfjöllun um þær. Margar tillagnanna tel ég vera góðar og aðrar síðri. Ég tel ljóst að vísað er í stefnu fyrri ríkisstjórnar þegar kemur að umfjöllun um eigendastefnuna og ný ríkisstjórn þarf að setja sér nýja stefnu. Við Vinstri græn höfum rætt mikið um samfélagsbanka og tel ég að þá hugmynd þurfi að ræða betur. Mikilvægt að ræða niðurstöðuna á Alþingi á nýju ári til þess að fara yfir það sem í hvítbókinni er að finna og heyra sjónarmið annarra. Hvítbókin er ágætis innlegg í umræðuna og nær markmiðum sínum sem voru að vera grundvöllur umræðu um stefnumótun og ákvarðanatöku í samræmi við stjórnarsáttmálann. En hvítbókin er ekki, og var aldrei ætlað að vera einhver heilagur sannleikur um hvað skyldi gera í þessum málum til framtíðar,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: