- Advertisement -

Hvorki ráðherrar né þingmenn svara formanni Öryrkjabandalagsins

Sú æpandi þögn sem aðgerðarleysi stjórnvalda framkallar er óbærileg þeim sem skynja.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar:

Aðgerðarpakki 2: Varnir-vernd-viðbrögð. Þessum aðgerðarpakka var sennilega ætlað að vernda. Vissulega er í honum að finna aðgerðir til geðheilbrigðismála sem ég fagna mjög, enda þörfin verið mikil í mörg ár og því efni til að gleðjast loksins þegar fjármagni er veitt í þessi brýnu málefni. Ég velti samt fyrir mér hvort gjaldtaka verði á tíma geðlækna og sálfræðinga, hvort örorkulífeyrisþegar hafi möguleika á þjónustunni.

Aðgerðir til foreldra og aðstandenda fatlaðra barna og til tómstunda og íþróttaiðkunar allra barna lágekjufólks voru líka tilefni til gleði. Öryrkjar eru flestir í lágtekjuhópi sem er undir radar (undir yfirborði) og nutu því ekki skattalækkana Lífskjarasamninga. Þær skattalækkanir gögnuðust því lítið öryrkjum sem búa við framfærslu langt undir lágmarkslaunum.

Fatlað og langveikt fólk hefur engar varnir.

Aðgerðarpakki 2 er vonbrigði. Þar sjást ekki sértækar aðgerðir sem miða gagngert að því að bæta hag fatlaðs- og langveiks fólks. Þeirra aðgerða var þó, og er enn, beðið af óþreyju, enda fátækt sár, útilokandi og niðurlægjandi. Viðvarandi framfærsluvandi virðist því ætlaður til frambúðar og ekki heyra fortíð til.

Stjórnvöld hvers tíma hvort sem er í kreppu eða blússandi góðæri hafa í áratugi skilið fatlað og langveikt fólk eftir þegar gæðum er skipt. Enginn hópur samfélagsins hefur upplifað jafn hart og kalt að hann sé ekki á vetur setjandi, að hann eigi ekkert tilkall til mannsæmandi lífs, að hann eigi að lifa í útskúfun og eilífri niðurlægingu, að hann hann sé fordæmdur og eigi aðeins skilið að draga fram lífið á framfærslu sem fáir eða engir fullorðnir einstaklingar telja sig geta lifað á.

Ég hef undanfarnar vikur sent bréf og skilaboð á ráðherra og þingmenn þar sem ég hef ítrekað að nú verði stjórnvöld að taka utan um fatlað og langveikt fólk og bæta úr þeirri brýnu framfærsluþörf sem hópurinn býr við. Ég hef ekki fengið samtal frá einum ráðherra eða þingmanni. Enginn þessara aðila virðist hafa nokkurn áhuga á því að vinna að málum sem eru þó algjörlega stjórnvalda að sameinast um. Fatlað og langveikt fólk hefur engar varnir aðrar en stjórnvöld, enda er það skylda stjórnvalda að ákvarða framfærslu fatlaðs og langveiks fólks. Engir aðrir koma að þeim kjarasamningum. Á tímum faraldurs og neyðarástands er skylda stjórnvalda enn ríkari gagnvart þessum hópi, það hefur sérlegur skýrslugjafi SÞ nýlega bent á. Sú æpandi þögn sem aðgerðarleysi stjórnvalda framkallar er óbærileg þeim sem skynja. Kannski erum það aðeins við, öryrkjarnir, sem höfum þann hæfileika að skynja það sem ekki er sagt. Enda svíður.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: