Í einangrun í risherberginu
„Það sem meira var, það var gríðarlega djúp tilfinning hjá þeim að ekki yrði staðið með þeim ef til átaka kæmi. Þannig var þeim innanbrjósts.“
Dagur B. Eggertsson.
„Mig langar að byrja aðeins á persónulegum nótum. Ég er staddur í risherberginu heima á Óðinsgötu og síminn hringir, sem er mjög venjulegt í mínu lífi,“ sagði Dagur B. Eggertsson í upphafi ræðu sinnar á Alþingi, um ársskýrslu Nató-þingsins.
„Það sem gerði þessa hringingu eftirminnilega var að borgarstjóri Vilníus var á línunni og hann hafði ekki hringt áður. Hann sagði við mig: Þetta er Remi, borgarstjóri Vilníus — maður sem ég kannaðist sannarlega við en við vorum svo sem ekki vinir eða nánir á nokkurn hátt — og mig langar að biðja þig að koma með mér til Kyiv. Já, sagði ég. Á morgun, heyrðirðu ekki ræðuna sem Pútín hélt í gær? Mér brá nú svolítið og spurði hann: Af hverju ertu að biðja mig um að koma með þér til Kyiv? Jú, það er vegna þess að þú ert borgarstjóri í Reykjavík, þú ert frá Íslandi. Svo lifandi er sú staðreynd að Íslendingar stóðu með Eystrasaltsríkjunum þegar í harðbakkann sló á sínum tíma að borgarstjórinn hringdi í mig, sem var nýkominn með Covid, var í einangrun uppi í risi, sem ég sagði honum og fór þess vegna ekki með. Remi fór hins vegar daginn eftir og fór til baka um kvöldið í síðustu flugvélinni sem var leyft að fljúga í gegnum lofthelgi Úkraínu vegna þess að árásarstríð Rússa hófst á sama sólarhring.“
Áfram með ræðu Dags: „Ég er að rifja þetta aðeins upp hér því um leið og ég var laus úr einangrun og sóttkví þá fór ég til Vilníus og Riga og Tallinn og raunar líka til Helsinki í stutta ferð til að sýna ákveðinn stuðning. Það var hægt að skera loftið í þessum höfuðborgum Eystrasaltslandanna og raunar Helsinki líka vegna þess að fólk þar var nokkurn veginn visst um það að innrás Rússa myndi taka skjótt af og þau væru næst. Það sem meira var, það var gríðarlega djúp tilfinning hjá þeim að ekki yrði staðið með þeim ef til átaka kæmi. Þannig var þeim innanbrjósts.“