- Advertisement -

Illugi niðurlægður, samt hróðugur

Stjórnmál „Illugi Gunnarsson gjörtapar slagnum um RÚV í ríkisstjórninni, en kemur bísperrtur í sjónvarpið og lýsir mikilli ánægju með niðurstöðuna. Hvort það má fremur skilgreina sem pólitískan masókisma eða siglfirskt jafnaðargeð er óvíst. Hitt er ljóst að Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór munu skála í kvöld….,“ þannig skrifar Össur Skarphéðinsson, á Facebook, um málalokin á slag Illuga Gunnarssonar innan ríkisstjórnarinnar.

Sjálfur skrifar ráðherrann: „Breytingarnar sem samþykktar voru í Ríkisstjórninni í dag varðandi RÚV gera það að verkum að Ríkisútvarpið fær að minnsta kosti sömu upphæð á næsta ári eins og það fékk á þessu ári. Ég er sáttur við þá niðurstöðu.“

Einsog kunnugt er af fréttum varð Illugi að bakka með breytingarnar á útvarpsgjaldinu, samráðherrar heimiluðu ekki að málið færi fyrir Alþingi.

Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur var ekki orðavant: „Hér stendur kjöldreginn menntamálaráðherra – niðurlægður af sinni eigin ríkisstjórn sem hefur gert hann brottreka með frumvarp um óbreytt útvarpsgjald. Í staðinn kemur einskiptisgreiðsla með því skilyrði að hún renni ekki til starfsmanna Ríkisútvarpsins, heldur til sjálfstætt starfandi verktaka utan stofnunarinnar. Svo mikil er andúð ríkisstjórnarinnar á Ríkisútvarpinu, að hún meira að segja niðurlægir menntamálaráðherra sinn frammi fyrir alþjóð frekar en að koma mikilvægustu menningarstofnunun landsins til hjálpar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: