- Advertisement -

Ísland fékk flestar tilnefningarnar

Umhverfi Ísland er með flestar tilnefningar allra Norðurlandanna til Náttúruverndar- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár, eða fjórar. Þær eru Sjálfseignarstofnunin Skaftholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi,  Sólheimar í Grímsnesi, Reykjavíkurborg og samstarf sveitarfélaganna Eyja- og Miklaholtshrepps, Helgafellssveitar, Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar á Snæfellsnesi. 

Náttúruverndar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða á þessu ári veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem hefur í starfsemi sinni lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar eða lagt sig sérstaklega fram á einhverju ákveðnu sviði umhverfismála.

Auk Íslendinganna hljóta Danir þrjár tilnefningar, Svíar tvær, Finnar tvær og Grænland og Færeyjar eina hvor.

Almenningi á Norðurlöndum gefst tækifæri til að senda inn tilnefningar til norrænnar dómnefndar sem er skipuð þrettán fulltrúum, tveimur frá hverju norrænu ríkjanna og einum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Að þessu sinni valdi dómnefndin úr yfir 30 ábendingum sem bárust.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tilnefningarnar þrettán eru:

Staðbundna samfélagið Gjógv (Færeyjar)

Sveitarfélagið Gladsaxe (Danmörk)

Sveitarfélagið Hallstahammar (Svíþjóð)

Sveitarfélagið Ii / Ijo (Finnland)

Borgin Jyväskylä (Finnland)

Sveitarfélagið Lejre (Danmörk)

Sveitarfélagið Middelfart (Danmörk)

Reykjavíkurborg (Ísland)

Saligaatsoq-Avatangiiserik-verkefnið (Grænland)

Skaftholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi (Ísland)

Snæfellsnes, samstarf fimm sveitarfélaga (Ísland)

Stofnunin Sólheimar (Ísland)

Sveitarfélagið Växjö (Svíþjóð)

Náttúruverndar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í Stokkhólmi miðvikudaginn 29. október 2014 í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Nemur verðlaunaféð 350 þúsund dönskum krónum, eða um 7,3 milljónum íslenskra króna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: