- Advertisement -

Mengun: Reyðfirðingar skoli grænmetið

Umhverfi Matvælastofnun bendir fólki, í Reyðarfirði, á að skola vel með vatni matjurtir, eins og salat og ber fyrir neyslu, einkum ef veðurfar hefur verið þurrt. Með því sé hægt að fjarlægja mikið af því flúori sem situr á yfirborði þeirra og minnka heildarinntöku neytenda á flúori.

Matvælastofnun segir að „ekkert sé því til fyrirstöðu að nýta matjurtir af svæðinu.“ Á síðasta ári voru tekin sýni af grasi, rabarbara, kartöflum, grænkáli og berjalyngi auk annarra jurta. Þegar matjurtirnar voru skoðaðar reyndust ber, fræ og rætur innihalda lág flúorgildi. Þá var styrkur efnisins í rabarbarastilkum, kartöflum og berjum mun lægri en styrkurinn í laufblöðum sömu plantna.
Matvælastofnun telur hættulaust að neyta dýra sem alin séu á mengunarsvæðinu.

Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar telur, hins vegar, að efla þurfi upplýsingagjöf til almennings til að koma í veg fyrir óþarfa áhyggjur af flúormengun í firðinum. Matvælastofnun telur ekkert til fyrirtöðu að nýta matjurtir af svæðinu en æskilegt sé að skola þær fyrir neyslu.

Í bókun nefndarinnar segir að fréttaflutningur af flúormælingum í Reyðarfirði hafi „ítrekað og að nauðsynjalausu vakið áhyggjur hjá íbúum í Fjarðabyggð af heilsufarslegu öryggi. Sú staða er ekki ásættanleg fyrir Fjarðabúa að þeir telji ástæðu til að vantreysta áhrifum nánasta umhverfis á líf sitt og heilsu, eigi það ekki við full rök að styðjast.“
Í frétt Austurfréttar segir Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar beini því til bæjarstjórnar að „hlutlægar upplýsingar“ verði gerðar aðgengilegar íbúum á vef sveitarfélagsins í samstarfi við fagaðila og fræðimenn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einnig er lagt til við yfirstjórn Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, sem hafa umsjón með eftirlitinu, að „kannað verði hvort leggja þurfi, í samskiptum þessara stofnana við fjölmiðla, aukna áherslu á faglega og gagnsæja miðlun upplýsinga til almennings.“

Fulltrúar stofnananna tveggja mættu á fundinn þar sem farið var yfir flúormælingar úr Reyðarfirði en styrkur efnisins í grasi hefur þrjú sumur í röð mælst yfir viðmiðunarmörkum.

Í bókun nefndarinnar segir að stakar mælingar feli „af margvíslegum ástæðum í sér afar takmarkað upplýsingagildi“ og því sé nær að líta til langtímamælinga. Mælt hafi verið óslitið frá því að álver Alcoa Fjarðaáls tók til starfa og ekkert í þeim niðurstöðum bendi til hættu gagnvart íbúum vegna flúorlosunar álversins.

Nefndin ítrekar að miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir að almenningi stafi ekki hætta af flúorlosun frá álverinu. Hún leggur þó „þunga áherslu á mikilvægi þess“ að áfram sé „af kostgæfni með mögulegum hættum sem íbúum og umhverfi kann að stafa af losun lofttegunda“ frá álverinu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: