- Advertisement -

Íslendingar eru eftirbátar í framleiðni

„Á undanförnum sjö árum hafa þær t.d. aukist um tæpt prósent á Íslandi en um 10% í Danmörku að raunvirði.“

Daði Már Kristófersson.

„Laun ófaglærðra hafa aukist langmest en minnst meðal þeirra sem mesta menntun hafa. Munurinn á launum þeirra minnst menntuðu og þeirra mest menntuðu er mestur á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin,“ sagði Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar. Hann situr á Alþingi þessa dagana.

„Gögn sýna að meðan Ísland flytur inn mikið af ófaglærðu fólki frá öðrum löndum Evrópu flytur menntað fólk úr landi. Þessi þróun veldur mér áhyggjum. Framleiðni þeirra atvinnugreina sem umfangsmestar hafa verið í innflutningi ófaglærðs vinnuafls er lítil og framleiðniaukning þeirra á undanförnum árum nær engin.

Því er oft haldið fram að hér sé mikill hagvöxtur, sem er vissulega rétt, en þjóðartekjur á mann hafa aukist lítið á undanförnum árum. Á undanförnum sjö árum hafa þær t.d. aukist um tæpt prósent á Íslandi en um 10% í Danmörku að raunvirði,“ sagði Daði Már.

Það er í fyrsta lagi vissulega rétt að áhersla verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum við kjarasamninga hefur verið á að hækka lægstu launin. Sú áhersla hefur í raun og veru verið ráðandi a.m.k. átta ár aftur í tímann sem hefur skilað því að tekjur þeirra hópa hafa hækkað og munurinn minnkað. Við getum auðvitað rætt það hvenær okkur finnst tekjujöfnuður orðinn nægjanlegur á Íslandi, því að hann er vissulega mjög mikill, m.a. vegna þessarar áherslu verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum,“ sagði Daði Már Kristófersson.

Hversu mikið á bilið að vera? Hversu mikill á jöfnuðurinn að vera?

Katrín jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði:

„Hefur það svo þau áhrif að ekki verður nægur hvati til að mennta sig, eins og hv. þingmaður nefnir? Ég vil í fyrsta lagi segja að auðvitað sækjum við okkur ekki menntun bara til að hækka laun. Það er svo margt annað sem fylgir því að sækja sér menntun sem snýst einfaldlega um aukin lífsgæði og lífskjör sem ekki verður eingöngu mælt í launum.

Hversu mikið á bilið að vera? Hversu mikill á jöfnuðurinn að vera? Og þá kem ég aftur að því sem hv. þingmaður nefndi hér í lokin hvað varðar stöðug skilyrði. Ég vil segja það að undanfarin 15 ár hefur þetta umhverfi gjörbreyst og það sjáum við auðvitað skila sér í fjölgun nýsköpunarfyrirtækja og stóraukinni erlendri fjárfestingu í þekkingariðnaði á Íslandi. Það er vegna þess að þetta umhverfi hefur farið frá því að vera stuðningur við einstaka fyrirtæki yfir í það að vera rammi um stuðning og umgjörð ríkisins fyrir þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki. Og það er jákvæð þróun. Hins vegar skiptir máli að sjálfsögðu, og ég tek undir með háttvirtum þingmanni, að við séum á tánum um það hvernig við ætlum að halda því áfram.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: