- Advertisement -

Íslensk stjórnvöld hafa eyðilagt páskavertíðina

Gunnar Smári skrifar:

Hver er árangur Ný Sjálendinga af hörðum reglum um sóttkví fyrir komufarþega?

Fyrsti sjúklingurinn var greindur á Nýja Sjálandi með cóvid 28. febrúar 2020. 14. mars var sett á tveggja vikna sóttkví fyrir komufarþega, reglur sem gilda enn rúmu ári síðar.

19. mars voru settar á 100 manna samkomutakmarkanir og tveimur dögum síðar fjögurra stiga hættuskilgreiningar, þar sem neðsta stigið var allt opið en það hæsta algjört útgöngubann.

8. júní var landið allt komið niður á fyrsta stig, sem merkir engar takmarkanir.

12. ágúst var landið sett á annað stig og Auckland (stærsta borgin, um 28% landsmanna býr þar) á þriðja stig. Landið allt fór síðan á fyrsta stig 21. september og Auckland fylgdi á eftir 7. október.

14. febrúar var Auckland aftur sett á þriðja stig og landið allt á annað, en aðeins í þrjá daga því 17. febrúar var landið komið á fyrsta stig og Auckland fylgdi á eftir 22. febrúar.

Sambærileg þróun varð síðan 28. febrúar, en landið fór á fyrsta stig 7. mars og Auckland 12. mars.

Frá afléttingu samkomutakmarkana 8. júní hafa því engar takmarkanir verið í 222 daga af 298 í Auckland (3/4 tímans) og í 248 daga utan stærstu borgarinnar (83% tímans)

Samdráttur í landsframleiðslu á Nýja Sjálandi var um 2,9% í fyrra í samanburði við 6,6% á Íslandi.

Fyrir utan færri dauðsföll (jafngildir sem 27 færri hafi dáið á Íslandi m.v. fólksfjölda) hefur daglegt líf haldist nánast í óbreyttum skorðum. Landið utan höfuðborgarinnar hefur aldrei verið sett á hærra hættustig en nr. 2 síðan 13. maí í fyrra en það merkir að samkomutakmarkanir hafa ekki verið þrengri en bann við 100 manna samkomum þá daga sem eitthvert bann er. Auckland var á þriðja stigi í 28 daga af 76 takmörkunardögum frá í sumar, en það merkir samkomutakmarkanir eins og gilda nú á Íslandi, bann við fjölmennari samkomum en tíu manna.

Samkomutakmörkunum var létt á Íslandi 25. maí í fyrra, en þó ekki alveg, voru áfram almennt takmarkaðar við 200 manna samkomur. Síðan hafa takmarkanir verið hertar og rýmkaðar á víxl en aldrei aflagðar. Í þessa 312 daga hafa takmarkanir verið minnst íþyngjandi (200 manns) í 38,5% tímans, miðast við 100 manns í 12,5% tímans en helming tímans, 49%, hafa samkomutakmarkanir verið harðar og verulegu íþyngjandi. Nær allan tímann hafa framhalds- og háskólar, sviðslistir, líkamsrækt, veitingastaðir og fleiri starfsemi búið við verulegar takmarkanir.

Samdráttur í landsframleiðslu á Nýja Sjálandi var um 2,9% í fyrra í samanburði við 6,6% á Íslandi, en vægi ferðamannaiðnaðar var viðlíka í löndunum fyrir cóvid. Með því að verja samfélagið allt tókst Nýsjálenskum stjórnvöldum að halda allri atvinnustarfsemi gangandi á meðan íslensk stjórnvöld lömuðu allskyns starfsemi reglulega með því að halda ekki uppi góðum vörnum á landamærunum.

Fyrir tveimur vikum spáði Hagstofa Íslands 2,6% hagvexti á þessu ári en á Nýja Sjálandi er spáð 4,5% hagvexti. Í árslok má því reikna með að hagkerfið á Íslandi sé 95,8% af því sem það var fyrir cóvid á meðan hagkerfið á Nýja Sjálandi verður 101,5% af því sem áður var. Á íslenskan mælikvarða jafngildir munurinn um 165 milljörðum króna, sem segja má að Íslendingar hafi tapað vegna aðgerða stjórnvalda.

Aukning atvinnuleysis á Íslandi umfram það sem gerðist á Nýja Sjálandi jafngildir störfum yfir tíu þúsund manns á Íslandi.

Atvinnuleysi var 4,1% á Nýja Sjálandi í árslok 2019 en var komið í 4,9% í árslok 2020. Atvinnulausum fjölgaði um 19,5%. Á Íslandi var 4,3% atvinnuleysi í árslok 2019 en 12,1% í árslok 2020. Atvinnulausum hafði fjölgað um 181%. Aukning atvinnuleysis á Íslandi umfram það sem gerðist á Nýja Sjálandi jafngildir störfum yfir tíu þúsund manns á Íslandi. Það eru störf sem nýsjálenskum stjórnvöldum tókst að verja. Eða sem íslensk stjórnvöld fórnuðu fyrir rýmri reglur um ferðir til og frá landinu.

Það er ágætt að hafa þetta í huga, núna þegar fólk riðst fram með harmkvælum loks þegar íslensk stjórnvöld grípa til þeirra aðgerða sem best hafa reynst í heiminum. Og þessum aðgerðir eru ekki beitt til að hefta frelsi heldur til að verja frelsi innan samfélaga; verja fundafrelsi og samkomufrelsi, atvinnufrelsi og ferðafrelsi innanlands, frelsi til að faðmast, fermast, fagna mörkum í fótbolta og til að mæta í útskriftir, brúðkaup, jarðarfarir o.s.frv. o.s.frv. Frelsi sem íslensk stjórnvöld hafa fórnað fyrir ímyndaða hagsmuni ferðaþjónustufyrirtækja. Sem hafa svo skaðast vegna aðgerðaleysis við landamærin eins og öll önnur fyrirtæki, eins og dæmin frá Nýja Sjálandi hafa sýnt svo vel. Með því að fresta því von úr viti að herða gæsluna við landamærin eru íslensk stjórnvöld búin að eyðileggja páskavertíðina fyrir fjölda ferðaþjónustufyrirtækjum og hafa stefnt sumrinu í voða.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: