
„Tíu vikur. Enginn matur, engin lyf, ekkert vatn inn á Gaza. 70 dagar, tíu vikur. Þúsundir tonna bíða á landamærunum, komast ekki inn. Í 70 daga, í tíu vikur. Ísraelsher og Ísraelsk stjórnvöld njóta alþjóðlegrar verndar, pólitískrar verndar, til að viðhalda stríðsglæpum og murka lífið úr heilli þjóð,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson á Alþingi í dag.
Ræða þingmannsins var kröftug.
„Einkaleyfi til þess, alþjóðlegt einkaleyfi. Við getum þagað yfir þessu. Við getum sagst vera lítil þjóð sem eigum að halda kjafti, en góður þingheimur: Við eigum að andæfa. Þess vegna fagna ég frumkvæði hæstv. utanríkisráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem herjar á samherja sína í Evrópu og hvetur þá til að sýna samúð og standa með mannúðinni. Við þögðum fyrir mannsaldri, 80 árum, vegna þess að við vissum ekki hvað var að gerast í helförinni. Við vissum það ekki. Við gátum falið okkur bak við það. En getum við núna? Viljum við það núna? Nei, við horfum upp á þetta á hverjum einasta degi, andlit horaðra barna stara framan í okkur og við gerum ekki neitt vegna þess að ein þjóð í heimi hér hefur einkaleyfi til að drepa annað fólk, saklaust fólk. Við verðum að standa með mannúðinni enn sem fyrr. En ég vek athygli á því að það eru liðnir 70 dagar, tíu vikur og alþjóðasamfélagið gerir ekki neitt, ekki neitt. Eftir heilan mannsaldur höfum við ekkert lært,“ sagði Sigmundur Ernir.