„Það er ekki gott fyrir heimilin í landinu, hvaðan sem þau sækja tekjur sínar. Það þýðir hækkandi vextir og það er ekki gott fyrir heimilin í landinu.“
Jens Garðar Helgason.
Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisfflokksins, geldur varhug við bættum kjörum öryrkja.
„Þessi hækkun getur verið verðbólguaukandi. Það er ekki gott fyrir heimilin í landinu, hvaðan sem þau sækja tekjur sínar. Það þýðir hækkandi vextir og það er ekki gott fyrir heimilin í landinu,“ sagði Jens Garðar í þingræðu. Jens Garðar vitnaði næst til orða Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs:
„Samtök atvinnulífsins (SA) gjalda varhuga við því að tengja greiðslur almannatrygginga við launavísitölu í sinni umsögn um frumvarpið og Viðskiptaráð leggst gegn þeirri breytingu. Í umsögnum SA og Viðskiptaráðs koma fram áhyggjur af auknum verðbólguþrýstingi, verði þessi breyting að lögum. Opinber útgjöld muni aukast, hvatar til þátttöku á vinnumarkaði muni veikjast og byrðar þeirra sem eru á vinnumarkaði þyngjast. Í báðum umsögnum er minnst á tvöfalda tryggingu bóta með tengingu við launavísitölu og tryggingu fyrir því að hækkanir verði aldrei minni en hækkun á vísitölu neysluverðs sem geti aukið misræmi milli hækkana á bótum og launahækkana.“
„Þetta er mál sem þarfnast umræðu…“
Öryrkjar eru margir hverjir meðal fátækasta fólks landsins. Varaformaðurinn og þingmaðurinn Jens Garðar sagði svo:
„Við erum öll sammála um hvert megininntakið er. Það er að standa vörð og styðja við þá sem eiga um sárt að binda en við verðum líka að gæta þess að það sé í einhverjum takti og í einhverju samræmi við það sem aðrir hópar í samfélaginu eru að fá. Ég get skilið hvert hæstvirtur ráðherra er að fara og ég held að við öll sem höfum fylgst með henni og hennar pólitík og pólitískum störfum og ræðum skiljum það. En hér erum við að tala um hækkun sem er áætluð milli 3 og 4 milljarðar á ári. Þessi hækkun getur verið verðbólguaukandi. Það er ekki gott fyrir heimilin í landinu, hvaðan sem þau sækja tekjur sínar. Það þýðir hækkandi vextir og það er ekki gott fyrir heimilin í landinu,“ sagði Jens Garðar Helgason og endaði svo með þessum orðum:
„Þetta er mál sem þarfnast umræðu og við verðum að skoða vel hvaða efnahagslegu áhrif það hefur og ég held að það sé líka þeim mun mikilvægara að skoða hvernig vinnumarkaðsmódelið okkar er sett upp þannig að það sé hinn almenni markaður sem leiði hér launaþróun en ekki hinn opinberi markaður.“